Skotarnir sáu um lánlausa Skagamenn

Skoski framherjinn Steven Lennon sem skoraði seinna mark FH í …
Skoski framherjinn Steven Lennon sem skoraði seinna mark FH í baráttu við Þórð Þ. Þórðarson, leikmann ÍA, í leik liðannna í dag. mbl.is/Árni Sæberg

FH saxaði á forskot Vals á toppi efstu deildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar, með 2:0-sigri sínum gegn ÍA í 12. umferð deildarinnar í Kaplakrika í dag. Það voru Robbie Crawford og Steven Lennon sem skoruðu mörk FH í fyrri hálfleik, en Atli Guðnason var arkitektinn að báðum mörkum skosku leikmannanna.

Crawford kom FH yfir á 18. mínútu leiksins þegar hann skoraði með skoti af stuttu færi í autt markið eftir hnitmiðaða fyrirgjöf Atla. Lennon tvöfaldaði síðan forystu FH átta mínútum síðaar Atli þræddi þá boltann laglega inn fyrir flata vörn Skagamanna og Lennon skoraði með góðu skoti sem fór framhjá Páli Gísla Jónssyni sem stóð í marki ÍA í fjarveru Ingvars Kale.

Forystan sem FH fór með inn í seinni hálfleikinn var afar sanngjörn, en heimamenn áttu fjölmargar sóknarlotur. Steven Lennon nýtti sér vel það pláss Þórður Þorsteinn Þórðarson skildi eftir sig þegar hann fór fram völlinn og Atli var afar skapandi í stöðu fremsta miðjumanns.

Þá átti Crawford þó nokkur ógnandi hlaup af miðsvæðinu. Varnarlína Skagamanna átti í vök að verjast allan leikinn og þó svo að hún hafi verið fjölmenn var hún götótt. Sóknarleikur Skagamanna var bitlaus í fyrri hálfleik, en nokkur kraftmikil hlaup Tryggva Hrafns Haraldssonar héldu varnarmönnum FH við efnið.

FH andar í hálsmal toppliðanna

Skagamenn hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti. Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, blési til sóknar og skipti úr leikkerfinu 5:4:1 sem litlu hafði skilaði í fyrri hálfleik í 4:4:2. Gunnlaugur færði Tryggva Hrafn af kantinum yfir í fremstu víglínu og hann hélt áfram að skapa usla með hraða sínum og áræðni.

Sóknarþungi Skagamanna bar hins vegar ekki árangur og sá kraftur sem var í gestunum af Skaganum í upphafi seinni hálfleiks fjaraði hægt og rólega út. FH-ingar náðu tökum á leiknum á nýjan leik um miðbik seinni hálfleiks og voru nær því að bæta við mörkum í síðari hluta seinni hálfleiks, en Skagamenn að koma sér inn í leikinn með marki.

Niðurstaðan varð nokkuð þægilegur 2:0-sigur FH sem komst þar af leiðandi upp í þriðja sæti deildarinnar með 20 stig og minnkaði forskot Vals á toppi deildarinnar í fjögur stig.  ÍA vermir aftur á móti áfram botnsæti deildarinnar , en Skagamenn eru með níu stig og eru tveimur stigum frá KR sem situr í næsta sæti fyrir ofan fallsæti.

Robbie Crawford sem skoraði fyrra mark FH í baráttu við …
Robbie Crawford sem skoraði fyrra mark FH í baráttu við Arnar Má Guðjónsson, leikmann ÍA. mbl.is/Árni Sæberg
FH 2:0 ÍA opna loka
90. mín. Þremur mínútum bætt við venjulegan leiktíma í seinni háfleik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert