Bjarni mætir KR í kunnuglegri stöðu – fjórir leikir

Logi Ólafsson og Bjarni Guðjónsson.
Logi Ólafsson og Bjarni Guðjónsson. Ljósmynd/Víkingur

Fjórir leikir fara fram í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi-deildinni, í kvöld er 12. umferðin heldur áfram. Óhætt er að segja að um áhugaverðar viðureignir sé að ræða.

Tveir leikir fara fram kl. 17, KA - Breiðablik, og Fjölnir - ÍBV. Víkingur Reykjavík tekur á móti KR kl. 19:15 og þá fer leikur Stjörnunnar og Grindavíkur fram í Garðabæ kl. 20:00.

KA tekur á móti Breiðabliki í leik tveggja liða sem hefur ekki gengið nægilega vel upp á síðkastið. KA vann ÍBV, 6:3, í síðasta leik en hafði fyrir það ekki unnið í fjórum leikjum í röð. Breiðablik hefur ekki unnið í fimm leikjum í röð og vann síðast leik þann 5. júní gegn ÍA á Akranesi. Breiðablik hefur 12 stig í 9. sæti en KA 15 stig í 5. sæti.

KA-menn fá Breiðablik í heimsókn.
KA-menn fá Breiðablik í heimsókn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fjölnir og ÍBV mætast í Grafarvogi í leik tveggja liða sem koma inn í leikinn með afar ólík úrslit á bakinu. Fjölnir burstaði topplið Grindavíkur 4:0 í síðustu umferð en ÍBV fékk sex mörk á sig gegn KA.  Fjölnir hefur 12 stig í 8. sæti en ÍBV 11 stig í 11. sæti og í fallsæti.

Fjölnismenn taka á móti ÍBV.
Fjölnismenn taka á móti ÍBV. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Víkingur Reykjavík og KR mætast svo í Reykjavíkurslag í Víkinni í áhugaverðri viðureign þar sem Bjarni Guðjónsson, aðstoðarþjálfari Loga Ólafssonar hjá Víkingum, mætir sínum gömlu lærisveinum í KR. KR er á sama stað og Bjarni skildi við liðið fyrir rúmu ári síðan, í bullandi fallbaráttu með 11 stig, jafnmörg og ÍBV sem er í fallsæti. Víkingur R. hefur 15 stig í 6. sætinu.

KR-ingar eru veseni í deildinni og á svipuðum stað og …
KR-ingar eru veseni í deildinni og á svipuðum stað og Bjarni skildi við liðið fyrir rúmu ári. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stjarnan mætir Grindavík í baráttu liðanna í efri hluta deildarinnar. Eftir gott gengi upp á síðkastið og sjö leiki án taps steinlágu Grindvíkingar gegn Fjölni í síðustu umferð, 4:0. Það er nú þeirra að sanna hvort það hafi verið slys eða hvort blaðran sé hreinlega sprungin. Stjarnan vann sinn fyrsta leik í langan tíma gegn KR í síðustu umferð og hefur 18 stig í 4. sæti og getur með sigri jafnað Grindvíkinga að stigum, þar sem þeir sitja í 2. sæti með 21 stig.

Stjörnumenn unnu góðan sigur á KR í síðustu umferð.
Stjörnumenn unnu góðan sigur á KR í síðustu umferð. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert