Njarðvíkingar aftur á toppinn

Njarðvíkingar fagna eftir einn sigurleikja sumarsins.
Njarðvíkingar fagna eftir einn sigurleikja sumarsins. Ljósmynd/Facebooksíða Njarðvíkur

Njarðvík komst aftur á topp 2. deildar karla í knattspyrnu í gær með því að sigra Sindra 2:1 á Hornafirði í 13. umferð deildarinnar.

Njarðvík fór þar með upp fyrir Magna á markatölu en Magnamenn gerðu jafntefli við Völsung, 2:2, á fimmtudagskvöldið. Njarðvík og Magni eru með 27 stig hvort.

Styrmir Gauti Fjeldsted og Atli Freyr Ottesen gerðu mörk Njarðvíkinga en Tómas Leó Ásgeirsson minnkaði muninn fyrir Sindramenn sem sitja áfram einir og langneðstir á botninum með aðeins 3 stig.  Þeir misstu markvörð sinn, Darko Franic, af velli með rautt spjald undir lok leiksins.

Huginn og Afturelding, sem eru í þriðja og fjórða sæti, skildu jöfn á Seyðisfirði, 2:2. Mörkin komu öll á tíu mínútna kafla snemma í seinni hálfleik. Gonzalo Zamorano og Milos Ivankovic skoruðu fyrir Hugin en Ágúst Leó Björnsson og Wentzel Steinarr Kamban fyrir Aftureldingu. Huginn er með 24 stig og Afturelding 20, og þetta virðast vera þau tvö lið sem geta elt Magna og Njarðvík í baráttunni um sæti í 1. deild.

Víðir og Vestri eru jöfn í 5. og 6. sæti með 19 stig en Vestramenn lögðu Víði 2:1 í leik liðanna í Garðinum. Pawel Grudzinski skoraði fyrir Víði í fyrri hálfleik en Viktor Júlíusson svaraði tvívegis fyrir Vestra í síðari hálfleik.

Höttur komst í 7. sætið með 18 stig með því að sigra KV 2:0 á KR-vellinum. Ignacio Gonzalez og Brynjar Árnason skoruðu mörkin. KV er nú í 10. sætinu með 14 stig.

Fjarðabyggð náði KV að stigum með góðum útisigri á Tindastóli, 3:2, á  Sauðárkróki en er áfram í fallsæti. Tindastóll er með 15 stig í 9. sætinu. Enrique Ramirez sem kom til liðs við Fjarðabyggð á dögunum skoraði tvö mörk og Loic Mbang Ondo eitt en Ísak Sigurjónsson og Fannar Örn Kolbeinsson gerðu mörk Tindastóls. Fjarðabyggð var manni færri í 60 mínútur eftir að Georgi Karaneychev fékk rauða spjaldið á 28. mínútu. Undir lok leiksins fékk svo Tindastólsmaðurinn Kenneth Hogg líka rauða spjaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert