Vorum langt í frá nógu góðir

Matt Garner og Þórir Guðjónsson með augun á boltanum.
Matt Garner og Þórir Guðjónsson með augun á boltanum. mbl.is/Árni Sæberg

„Við hefðum getað nælt okkur í stig með marki á lokamínútum leiksins, en heilt yfir fannst mér við langt frá því að vera nógu góðir í þessum leik. Mér fannst vanta ákefð, hugrekki og þor í okkar spilamennsku,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, í samtali við mbl.is, eftir 2:1-tap liðsins gegn Fjölni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. 

ÍBV er í slæmum málum eftir þetta tap, en liðið er í næstneðsta sæti deildarinnar með 11 stig. Kristján benti á það að það væri nóg af stigum eftir í pottinum, en vissulega þyrfti spilamennska liðsins að fara að batna og stigasöfnun að hefjast sem allra fyrst. 

„Við erum leik eftir leik í þeirri stöðu að vera inni í leikjunum og eiga góðan möguleika á að krækja okkur í stig. Það er hins vegar linur varnarleikur og einbeitingarleysi í varnarvinnunni sem verður til þess að við missum stigin úr greipum okkar. Nú þurfum við að bæta í tempóið í spilinu okkar og fara að hala inn stigum,“ sagði Kristján um síðustu leiki ÍBV og framhaldið hjá liðinu. 

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert