Fáránlegt að vera ánægður eftir 3:0 tap

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

„Þetta var skrítinn leikur fannst mér, ég er að mörgu leyti ánægður með liðið þó að það sé fáránlegt að segja það eftir 3:0 tap,“ sagði Kristófer Sigurgeirsson, þjálfari Leiknis, eftir 3:0 tap gegn Fram í 14. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld.

Fram komst yfir rétt fyrir hálfleik eftir að Jóhann Ingi Jónsson dómari dæmdi vítaspyrnu þegar Halldór Kristinn Halldórsson virtist brjóta á Guðmundi Magnússyni inni í teig, en Kristófer var fullur efasemda um þann dóm.

„Ég sá þetta eiginlega akkúrat öfugt, mér fannst hann fara aftan í Ósvald en ég vona bara að hann hafi haft rétt fyrir sér.“

Leiknir mætir Íslandsmeisturum FH í undanúrslitum Borgunarbikarsins um næstu helgi og verður það einn stærsti leikur í sögu félagsins, hefur það ekki haft áhrif á spilamennsku liðsins í kvöld?

„Auðvitað getur það haft áhrif, þetta er eitthvað sem félagið hefur aldrei farið í áður og það gæti verið í undirmeðvitundinni. En þessi leikur er þannig að seinustu 20 mínúturnar finnst mér við alltaf vera að fara að minnka muninn, þetta þriðja mark skiptir svo engu máli. Fyrst við náum ekki að skora þá skiptir ekki máli hvort þú tapar 2:0 eða 3:0. Við eigum skot í stöng og nokkra ágætissénsa sem hefðu getað breytt ýmsu.“

Hvernig leggst bikarleikurinn í Kristófer?

„Ekki vel þessa stundina en þetta verður bara gaman fyrir okkur. Við höfum engu að tapa og förum pressulausir í það og oft er gaman að spila fótboltaleiki þannig.“

Hefur sumarið verið vonbrigði í Breiðholtinu?

„Í deildinni alveg tvímælalaust, ég er fyrstur til að viðurkenna að við vildum gera meira en þetta.“

Félagaskiptaglugginn er enn þá opinn en Leiknir hefur misst Elvar Pál Sigurðsson í meiðsli eftir að hann ökklabrotnaði ásamt því að Daði Bærings Halldórsson er á leið í nám erlendis, ætlar Leiknir að bæta í hópinn í staðinn?

„Við erum með aðeins í deiglunni en þetta er erfiður markaður og við viljum ekki taka hvern sem er. Við erum búnir að missa Elvar Pál sem hefur verið einn okkar allra besti maður í sumar og Daði Bærings er að fara út í skóla svo það er helst miðjusvæðið [sem þarf að styrkja],“ sagði Kristófer að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert