Skeinuhætt danskt sóknarteymi

Frá viðureign Víkings og KR í gærkvöld.
Frá viðureign Víkings og KR í gærkvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR kom sér af mesta hættusvæðinu í Pepsi-deild karla í knattspyrnu með því að vinna sannfærandi 3:0 sigur á Víkingi R. í Fossvogi í gærkvöldi.

KR-ingar lögðu grunninn að sigrinum með tveimur mörkum í fyrri hálfleik frá Dönunum Thobias Thomsen og André Bjerregaard sem spiluðu saman í fremstu víglínu. Bjerregaard var að leika sinn fyrsta leik með KR eftir að hafa gengið í raðir félagsins frá Randers í heimalandinu og spilaði hann mjög vel. Thomsen skoraði sitt annað mark í seinni hálfleik og gulltryggði sigur KR-inga.

KR-ingar voru meira með boltann í upphafi leiks og voru sóknaraðgerðir þeirra hættulegar frá byrjun. Víkingur fékk hins vegar sitt besta færi í stöðunni 0:0. Alex Freyr Hilmarsson, besti leikmaður Víkings í gær, lagði þá boltann á Erling Agnarsson sem var einn gegn Beiti Ólafssyni í marki KR. Markmaðurinn varði hins vegar glæsilega frá Erlingi og skömmu síðar var KR komið yfir.

Thomsen og Bjerregaard mynduðu mjög hættulegt framherjapar og reyndust þeir varnarmönnum Víkings erfiðir allan leikinn. Óskar Örn Hauksson og Kennie Chopart léku einnig mjög framarlega á köntunum í sóknarsinnuðu liði KR. Víkingar voru töluvert varnarsinnaðri og var Geoffrey Castillion oft á tíðum einmana í fremstu víglínu. Víkingar sóttu á fáum mönnum og það vantaði gæði í þeirra leik, gæði sem voru til staðar hjá KR.-ingum. KR stjórnaði miðsvæðinu í leiknum og var Pálmi Rafn Pálmason eins og kóngur í ríki sínu á miðjunni.

Eftir slakt gengi að undanförnu og aðeins tvo deildarsigra á síðustu tveimur mánuðum var allt annað að sjá til KR í gær. Liðið sýndi að það á ekki heima í fallbaráttu og með komu Bjerregaard gæti liðið blandað sér í baráttu um Evrópusæti.

Sjá allt um leikina í Pepsi-deildinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert