Það var keyrt í bakið á mér

Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði mark Víkings í kvöld.
Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði mark Víkings í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði eina mark Víkings Ó. í 2:1 tapinu gegn Val á heimavelli í kvöld. Valsmenn voru mikið sterkari í upphafi leiks og segir Guðmundur að það hafi  nákvæmlega verið það sem við var búist.

„Þessi leikur var eins og við var að búast, Valsmenn stjórna meira leiknum og eru meira með boltann á meðan við reyndum að vera þéttir og erfiðir, það tókst á köflum en svo fáum við á okkur mörk þar sem við getum gert betur og við verðum að horfa á sjálfa okkur í þeim. Þeir eru líklega með besta lið deildarinnar í dag, það segir taflan og það var vitað að þetta yrði erfitt. Það er mikil brekka þegar þú fær tvö mörk á þig á móti þeim."

Guðmundur skoraði eftir slæman varnarleik hjá Eiði Aroni Sigurbjörnssyni. 

„Þetta var þvílíkt klúður hjá þeim og ég reyndi að nýta mér það. Völlurinn var erfiður og boltinn skoppaði asnalega fyrir Eið, ég kvarta ekki yfir því heldur reyni bara að setja boltann í markið og það tókst núna."

Einhverjir Víkingar voru ósáttir við tvö atriði í dómgæslu Erlends Eiríkssonar. Annars vegar vildi Guðmundur fá víti er honum fannst Bjarni Ólafur Eiríksson brjóta á sér og hins vegar voru Víkingar ósáttir við sigurmark Patrick Pedersen. 

„Ég sé ekki hvað gerist fyrir aftan mig en ég held að Bjarni Ólafur hafi ýtt með báðum höndum í bakið á mér þegar ég ætla að skalla boltann, ég vildi fá eitthvað því það var keyrt í bakið á mér. Varðandi markið þeirra þá er ég hinum megin á vellinum og er ekki besti maðurinn til að sjá hvað gerðist en frá mér séð er þetta barátta. Mér finnst ekkert að því að dæma á þetta og hann var að dæma á þessa hluti fyrr í leiknum, en samkvæmt knattspyrnureglum, eins og ég sé þær þá var þetta ekki brot, heldur fínt mark."

Guðmundur er ánægður með bætta spilamennsku Víkings í undanförnum leikjum. 

„Við erum að gera mikið betri hluti núna en framan af móti og það er það sem við höfum verið að vinna að. Liðið mætti seint og við erum að vinna í okkar leik og að finna taktinn. Það hefur tekist og við töpum með minnsta mun á móti Val og við verðum að halda áfram, það er enginn heimsendir."

Víkingur er aðeins tveimur stigum frá fallsæti. 

„Þetta er undir hverju liði komið, þetta er þannig pakki. Um leið og þú vinnur nokkra leiki ertu í ágætismálum og ef þú tapar nokkrum og hinir eru að mjatla inn stig ertu í veseni. Hvert lið er með þetta í sínum höndum og við lítum þannig á þetta," sagði Guðmundur Steinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert