Skítsama hvernig mörkin koma

Ólafur Jóhannesson
Ólafur Jóhannesson mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var vitaskuld ánægður með 2:1 sigur sinna manna gegn Víkingi Ó. á útivelli í 12. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Valsmenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og hefðu getað skorað nokkur mörk á fyrstu 20 mínútunum. 

„Mér fannst við vera betri og við áttum að klára þetta í fyrri hálfleik. Við erum að spila við Víkingslið sem er búið að ganga mjög vel og það er mikið sjálfstraust hjá þeim, það er erfitt að spila við þá og sérstaklega hérna svo ég er gríðarlega ánægður með sigurinn."

„Við ætluðum okkur að klára þennan leik á fyrstu 20 mínútunum og við fengum færin til þess. Það datt hins vegar ekki inn og við þurftum að halda haus. Það komu svo mistök hjá Eið sem kostuðu okkur mark sem var dýrt. Við breyttum aðeins leikskipulaginu og ætluðum að herja á þá."

Patrick Pedersen skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti, en þetta var annar leikur Danans eftir að hann kom til félagsins í mánuðinum. Ólafur var ánægður með markið, en bætir við að honum sé sama hvernig markið var. 

„Hann er hættulegur og góður framherji og við vissum hvað við vorum að fá þegar við fengum hann. Það er gott fyrir hann að skora og það er gott að hann sé kominn á blað. Mér í skítsama hvernig mörkin koma, ef hann fer yfir línuna þér er ég ánægður en hann kláraði þetta vel."

Valsmenn eru með sex stiga forskot á toppi deildarinnar. 

„Við erum ánægðir með það sem er að gerast núna, við einbeitum okkur að okkur sjálfum og þetta er í okkar höndum. Við ætlum að halda þessu áfram. Við verðum helst að vinna alla leiki, það væri best og við stefnum að því. Við mætum Skaganum næst og förum að undirbúa það núna," sagði Ólafur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert