Verðum að þora að halda í boltann

Davíð Þór Viðarsson og félagar eru í eldlínunni í dag.
Davíð Þór Viðarsson og félagar eru í eldlínunni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar FH verða í eldlínunni í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld þegar þeir etja kappi við slóvensku meistarana í Maribor í fyrri viðureign liðanna sem fram fer á Ljudski-vellinum í Maribor. Flautað verður til leiks klukkan 18.20 að íslenskum tíma.

FH-ingar voru komnir til Maribor á sunnudagskvöldið og æfðu á keppnisvellinum í gærkvöld.

„Það hefur farið vel um okkur hér í Maribor. Hótelið er gott en það er reyndar búið að rigna töluvert og það er bara ágætt að það er ekki of heitt. Við getum ekki kvartað yfir aðstæðum né ferðalaginu hingað,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Halda einvíginu opnu fyrir seinni leikinn

Um möguleika FH-liðsins í einvíginu gegn Maribor segir Davíð Þór:

„Ég tel að við eigum alveg smá möguleika og við trúum því að við getum gert einhverja hluti á móti þeim. Okkar helsta markmið í þessum fyrri leik er að halda einvíginu opnu fyrir síðari leikinn. Maður getur horft á eins marga leiki og maður getur gegn mótherjum í Evrópukeppni en þú áttar þig ekki á andstæðingnum fyrr en út í leikinn er komið. Við áttum okkur alveg á því að Maribor er mjög sterkt lið sem hefur komist í riðlakeppni í Evrópukeppninni undanfarin ár en það er líka komin góð reynsla í okkar lið í Evrópukeppninni.

Frá því ég kom til baka í FH hefur okkur tekist að halda einvígunum opnum eitthvað fram í seinni leikina hver sem svo sem mótherjinn hefur verið. Við erum fullir sjálfstrausts en áttum okkur á því að við erum að fara í mjög erfiðan útileik þar sem heimaliðið mun fá mikinn stuðning,“ sagði Davíð Þór.

Nánar er rætt við Davíð Þór í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert