„Erum ekki að tapa okkur“

Lárus Orri Sigurðsson.
Lárus Orri Sigurðsson. Skapti Hallgrímsson

Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari Þórs í Inkasso-deildinni, var fenginn í spjall eftir að Þór hafði lagt Þrótt í kvöld. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið en Þór varð að vinna til að halda í við toppliðin þrjú og koma sér í baráttuna um sæti í Pepsi-deildinni.

„Það hefur gengið vel upp á síðkastið og við vorum þéttir í kvöld. Þróttur fékk ekki færi í leiknum en þeir eru með svakalega flotta sóknarlínu. Við vörðumst vel og vorum hættulegri, fengum svo sem ekki mikið af færum en nýttum tvö og það telur.“

Það hefur gengið vel eftir að þú breyttir uppstillingunni og fórst í fjögurra manna vörn.

„Það er langt síðan við gerðum það og það hefur virkað vel. Við hins vegar verðum að halda okkur á jörðinni og koma klárir í næsta leik. Þá förum við á Haukavöllinn og ég held að Haukarnir hafi ekki tapað leik á þeim velli. Nú fögnum við þessum góða sigri og svo er bara að lemja sig niður á jörðina strax á morgun.“

Mótið byrjaði hörmulega hjá ykkur en nú eruð þið að nálgast toppliðin. Horfið þið ekki beint upp á við?

„Við erum búnir að vinna mikið í því að lagfæra byrjunina á mótinu en við töpuðum þremur fyrstu leikjunum og duttum út úr bikarkeppninni. Það var slæmt að tapa þessum leikjum en það var engin katastrófa. Það var mikið talað um þetta og við vorum í sviðsljósinu. Við höfum verið að moka okkur til baka en það er hellingur eftir og við erum enn í fjórða sætinu þótt við séum að nálgast. Það er enn hellingur af stigum í annað sætið svo við erum ekki að tapa okkur yfir neinu,“ sagði Lárus Orri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert