Fékk mikið D-vítamín í kroppinn

Höskuldur Gunnlaugsson í leik gegn FH-ingum.
Höskuldur Gunnlaugsson í leik gegn FH-ingum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blikinn Höskuldur Gunnlaugsson sýndi heldur betur á sér sparihliðarnar í góðum sigri Breiðabliks gegn KA á Akureyri um síðustu helgi.

Blikarnir fögnuðu góðum 4:2 sigri þar sem Höskuldur gerði sér lítið fyrir og lagði upp öll fjögur mörk sinna manna. Höskuldur er leikmaður 12. umferðar Pepsi-deildarinnar að mati Morgunblaðsins og fékk 3 M fyrir frammistöðu sína, hæstu mögulega einkunn.

,,Það var bongóblíða á Akureyri og maður fékk mikið D-vítamín í kroppinn. Ég var því ansi ferskur í leiknum,“ sagði Höskuldur í léttum dúr í samtali við Morgunblaðið.

,,Þetta er í fyrsta skipti sem ég legg upp fjögur mörk í einum og sama leiknum og þetta er ansi mikið afrek að mínu mati. Það er gaman að eiga þetta í minningunni. Það hefði kannski verið toppurinn að ná að skora líka. Ég fékk færi til þess en ég var mjög sáttur við mitt hlutskipti og ég var mjög glaður með þennan góða sigur okkar. Við sýndum mikinn karakter eftir að hafa lent undir og unnum seinni hálfleikinn, 3:0.

Ég er að vona að með þessum sigri verði umskipti hjá okkur varðandi stigasöfnunina. Spilamennska okkar í sumar hefur alveg verið alveg svipuð og í KA-leiknum. Við höfum skapað okkur fullt af færum og komist yfir í leikjum en höfum í þrígang misst unninn leik niður í jafntefli eða tap á lokamínútunum. Þetta fjórða mark sem við skoruðum fyrir norðan var mjög kærkomið og vonandi liggur nú leiðin upp hjá okkur,“ sagði Höskuldur en eftir 12 umferðir er Breiðablik í 7. sæti deildarinnar með 15 stig.

Höskuldur stimplaði sig inn í Pepsi-deildina með eftirminnilegum hætti sumarið 2015 þar sem hann skoraði 6 mörk í 20 leikjum og var í mótslok valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar af leikmönnum. „Krulli Gull“ eins og Höskuldur er oft nefndur náði ekki alveg að fylgja góðu tímabili 2015 í fyrra en nú segja gárungarnir að gamli góði Höskuldur sé vaknaður til lífsins.

Sjá allt viðtalið við Höskuld í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag en þar er einnig að finna úrvalslið Morgunblaðsins úr 12. umferð, stöðuna í M-gjöfinni og ýmsan fróðleik um umferðina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert