Nú ætlum við að vinna dolluna

Eyjamenn höfðu ástæðu til að fagna í kvöld.
Eyjamenn höfðu ástæðu til að fagna í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við erum gríðarlega ánægðir með þessa niðurstöðu. Við gengum í gegnum þetta í fyrra og okkur langaði að gera það aftur,“ sagði Eyjamaðurinn Hafsteinn Briem við mbl.is eftir sigur ÍBV gegn Stjörnunni í undanúrslitum Borgunarbikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld.

Baráttuglaðir Eyjamenn fögnuðu sætum 2:1-sigri þar sem Hafsteinn skoraði fyrra mark sinna manna þegar hann jafnaði metin og Færeyingurinn Kaj Leo í Bartalsstovu skoraði svo sigurmarkið. ÍBV er þar með komið í bikarúrslitaleikinn annað árið í röð en þeir töpuðu fyrir Valsmönnum í fyrra.

„Við töpuðum bikarúrslitaleiknum í fyrra en nú verður stefnan tekin á að vinna dolluna og fara með hana til Eyja. Við erum reynslunni ríkari eftir úrslitaleikinn í fyrra. Við sýndum mikinn karakter og vilja að koma til baka eftir að hafa lent undir og við sýndum í kvöld að það býr hellingur í okkar liði.

Við megum ekki fagna of lengi. Við höfum verk að vinna í deildinni og strax á sunnudaginn mætum við Stjörnunni aftur í Eyjum. Stjörnumenn koma eflaust brjálaðir til leiks í þeim leik og vilja svara fyrir sig en þessi sigur gefur okkur gott veganesti og færir meira sjálfstraust í liðið,“ sagði Hafsteinn.

Það skýrist á laugardaginn hverjir mótherjar Eyjamanna verða í úrslitaleiknum en FH og Leiknir Reykjavík eigast við í hinum undanúrslitaleiknum í Kaplakrika.

„Miðað við afföllin hjá Leiknismönnum eru meiri líkur á að FH verði mótherji okkar í úrslitaleiknum en maður veit aldrei. Bikarleikir eru öðruvísi en deildarleikir og það getur allt gerst í þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert