Valur virðist vera að sigla þessu í land

Frá leik KR og Fjölnis í kvöld.
Frá leik KR og Fjölnis í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var erfiður leikur, Fjölnir er búinn að standa sig vel upp á síðkastið og við höfum verið að ströggla framan af sumri. Fyrri hálfleikurinn var sérstaklega erfiður í dag, við vorum værukærir og þungir, en í þeim síðari fannst mér við stjórna leiknum frá A-Ö,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, aðstoðarþjálfari KR, eftir 2:0-sigur gegn Fjölni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Sóknarlína KR átti sérlega góðan leik í kvöld og ber þar að nefna André Bjerregaard, danska sóknarmanninn sem var aðeins að leika sinn annan leik fyrir liðið eftir félagsskiptin frá Horsens í Danmörku fyrr í mánuðinum.

„Sóknarlínan var hreyfanleg, nýi leikmaðurinn gefur okkur fjölbreytni fram á við. Við höfum látið boltann ganga ágætlega fyrir framan varnir án þess að ógna mikið innfyrir en höfum núna fengið fljótan og sterkan framherja.

Þegar þú færð góða leikmenn lyftir það öðrum leikmönnum í kring. Hann er skemmtilega hrár og býður upp á aðra möguleika en það sem við höfðum fyrir.“

Fyrir aðeins fáeinum vikum var talað um KR í fallbaráttunni en eftir tvo sigurleiki í röð er liðið aðeins fjórum stigum frá öðru sætinu.

„Við vorum ekkert að tala um fallbaráttu, þetta lið er nægilega gott. Þetta snýst bara um að mæta í hvern einasta leik og gefa allt í þetta. Við höfum klúðrað leikjum á ótrúlegan hátt og gert klaufaleg varnarmistök hingað og þangað en þegar við höldum búrinu hreinu erum við alltaf líklegir til að skora. Það er stutt í Evrópusæti og það er okkar markmið að stefna á það fyrst Valur virðist vera að sigla þessu í land.“

Mun KR gera fleiri breytingar áður en félagaskiptaglugginn lokast?

„Hópurinn okkar er bara mjög öflugur eins og hann er. Ungir strákar fá mínútur í hverjum leik, Ástbjörn Þórðarson [fæddur 1999] kom inn á í dag og stóð sig mjög vel og við erum ánægðir með hópinn eins og hann er,“ sagði Arnar að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert