Kristinn kominn til Breiðabliks

Kristinn Jónsson
Kristinn Jónsson mbl.is

Vinstri bakvörðurinn Kristinn Jónsson er genginn til liðs við knattspyrnulið Breiðabliks og mun spila með liðinu til loka þessa tímabils. Þetta kemur fram á vef stuðningsmanna Breiðabliks, blikar.is.

Kristinn Jónsson kemur til sinna gömlu félaga frá norska úrvalsdeildarliðinu Sogndal en áður hefur hann verið á mála hjá Sarpsborg í sömu deild og með Brommapojkarna í Svíþjóð. Kristinn var óheppinn en hann meiddist á undirbúningstímabilinu og hefur aðeins komið við sögu í einum leik með Sogndal í deildinni á þessu tímabili.

Kristinn er 26 ára gamall og er uppalinn hjá Breiðablik.  Hann hefur leikið 223 leiki með félaginu í meistaraflokki og skorað í þeim 15 mörk.  Hann var lykilmaður þegar liðið varð Íslandsmeistari 2010 og bikarmeistari 2011. 

Hann var valinn leikmaður ársins hjá Morgunblaðinu árið 2015 en hann hefur leikið 140 leiki í efstu deild þar sem hann er fimmti leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi.

Kristinn á að baki 8 A-landsleiki og alls 32 leiki með yngri landsliðum Íslands og skoraði þar 1 mark.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert