Fannst vera svolítil þreyta í liðinu

Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég viðurkenni það að við vorum farnir að búa okkur undir framlengingu og hvernig við ættum að skerpa á okkar leik í henni þegar Lennon skoraði markið og sem betur fer,“ sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH vð mbl.is eftir 1:0 sigur sinna manna gegn Leikni Reykjavík í undanúrslitum Borgunarbikarkeppninnar í knattspyrnu í dag.

„Það er það síðasta sem við hefðum viljað að fara í framlengingu í ljósi þess að okkur bíður gríðarlega mikilvægur leikur á móti Maribor á miðvikudaginn. Leiknismennirnir skildu allt eftir úti á vellinum og ég verð að hrósa þeim fyrir frammistöðuna. Þeir voru gríðarlega vel skipulagðir í varnarleik sínum og beittu góðu skyndisóknum. Miðverðirnir Bjarki og Skúli ásamt Eyjólfi í markinu voru frábærir,“ sagði Heimir.

Spurður hvort hans menn hafi innst verið eitthvað með hugann fyrir leikinn á móti Marbor í dag sagði Heimir;

„Já eflaust eitthvað en mér fannst vera svolítil þreyta í liðinu enda var ferðalagið frá Slóveníu strembið eftir mjög erfiðan leik á miðvikudaginn. Þetta sat aðeins í mönnum en nú fáum við nokkra daga til að jafna okkur fyrir leikinn á móti Maribor.

Það er gríðarlega gaman að vera kominn í úrslitaleikinn. Við höfum oft rætt það innan okkar raða að okkur vantar fleiri bikarmeistaratitla í safnið og nú fáum við tækifæri til að bæta úr því. Það er frábært fyrir félagið og stuðningsmennina að fá að fara í stærsta leik sumarsins. Þar mætum við sterku liði ÍBV,“ sagði Heimir Guðjónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert