Full ástæða til hóflegrar bjartsýni

Atli Viðar Björnsson
Atli Viðar Björnsson Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon

Það verður mikið í húfi fyrir Íslandsmeistara FH í Kaplakrika annað kvöld en þá freista FH-ingar þess að verða fyrsta íslenska liðið til að komast í riðlakeppni í Evrópukeppninni. Með því að slá slóvenska liðið Maribor úr leik eru FH-ingar öruggir með að komast í riðlakeppni Evrópudeildarinnar en þurfa að komast yfir eina hindrun til viðbótar til að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Atli Viðar Björnsson, markahæsti leikmaður FH frá upphafi, er einn fárra úr leikmannahópi FH í dag sem voru í sömu sporum fyrir fjórum árum. Þá spilaði FH við austurríska liðið Austria Vín í 3. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar. FH tapaði samanlagt 1:0 fyrir austurríska liðinu og var síðan slegið út af belgíska liðinu Genk í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

„Við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir mikilvægi leiksins og þetta tækifæri sem höfðum fyrir fjórum árum rifjast upp fyrir manni. Við vorum afar svekktir hvernig það allt fór en við erum reynslunni ríkari. Okkur fannst við eiga möguleika á móti Austria Vín og hvað þá eftir að hafa tapað fyrri leiknum, 1:0. Það sama er upp á teningnum núna. Við teljum okkur eiga möguleika á móti Maribor en til þess þurfum við auðvitað að ná fram góðum leik. Munurinn er bara eitt mark og ég held að það sé alveg ástæða fyrir því að vera hóflega bjartsýnn,“ sagði Atli Viðar í samtali við Morgunblaðið.

„Ég reikna fastlega með því að við höldum okkar leikskipulagi sem hefur virkað vel í Evrópukeppninni undanfarin ár. Við erum orðið þokkalega sjóað lið í Evrópukeppninni og í svona leikjum. Við höfum heyrt það í umræðum í fjölmiðlum að það sé mikið í húfi peningalega fyrir félagið. Það er nokkuð sem við leikmennirnir erum ekkert að hugsa um. Við sem íþróttamenn lítum bara á þetta sem tækifæri til að gera eitthvað sem hefur ekkert verið gert áður af íslensku liði,“ sagði Atli Viðar.

Viðtalið í heild sinni er í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert