„Við höfðum opnanir“

Atli Guðnason með boltann í leiknum í kvöld.
Atli Guðnason með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Atli Guðnason sagði FH hafa vantað meiri gæði til að gera sér mat úr góðum stöðum í Evrópuleiknum gegn Maribor í kvöld. Maribor sigraði 1:0 eins og í fyrri leiknum og FH er því úr leik í Meistaradeild Evrópu. 

„Mér fannst vera 50/50 hvort liðið myndi skora fyrsta markið. Mér fannst við vera mjög góðir í fyrri hálfleik. Við höfðum opnanir en mér fannst vanta gæði til að klára dæmið á síðasta þriðjungi vallarins. Þegar við náðum að komast í góðar stöður þá vantaði okkur aðeins meiri gæði til að klára sóknirnar með góðu marktækifæri. Slóvenarnir hafa það hins vegar og skoruðu tvö mörk í einvíginu,“ sagði Atli þegar mbl.is ræddi við hann í Kaplakrika en Atli lék sinn 41. Evrópuleik í kvöld. 

„Við þyrftum að vera með fleiri menn inni í teig þegar fyrirgjafir koma og boltinn dettur þar í kring. Þá er bara að æfa meira og reyna við þetta aftur síðar,“ sagði Atli. Spurður um hvort það sárabót sé í því falin að fá tækifæri til að komast inn í riðlakeppni Evrópu sagðist hann ekki geta hugsað svo langt því mörg verkefni bíða FH-inga í millitíðinni. 

„Það var vitað að leikirnir yrðu alla vega sex í heildina þegar við unnum Færeyingana. En næstu Evrópuleikir eru ekki nærri því strax. Fyrst eru þrír leikir í deildinni og bikarúrslitaleikur. Við þurfum að pæla í því áður en við förum að hugsa um Evrópudeildina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert