Stjörnustúlkur mættu Norður-Kóreu

Stúlkurnar úr Stjörnunni og norður-kóreska úrvalsliðinu eftir leikinn í átta …
Stúlkurnar úr Stjörnunni og norður-kóreska úrvalsliðinu eftir leikinn í átta liða úrslitunum í Noregi.

Stjörnustúlkur í 4. flokki kvenna mættu öflugum jafnöldrum sínum frá Norður-Kóreu á alþjóðlega knattspyrnumótinu Norway Cup sem nú stendur yfir í Noregi.

Ísland hefur aldrei mætt Norður-Kóreu í landsleik í neinum aldursflokki og líklega er leikurinn sá fyrsti á milli liða frá löndunum tveimur.

Stjarnan hafði áður en að leiknum gegn hinu firnasterka norður-kóreska liði kom staðið sig feykilega vel á mótinu og haft betur í fimm leikjum með markatölunni 31:0.

Úrvalsliðið frá Norður-Kóreu er vel þjálfað, agað og skipulagt og vann stórsigur á Stjörnunni, 7:0, í átta liða úrslitum mótsins en það hefur í framhaldi af því tryggt sér sæti í úrslitaleiknum í þessum aldursflokki.

Knattspyrna kvenna er á mjög háu stigi í Norður-Kóreu og kvennalandslið þjóðarinnar er eitt af tíu bestu í heiminum samkvæmt heimslista FIFA. Þá hafa yngri landsliðin verið með þeim sterkustu í heiminum og Norður-Kórea varð á síðasta ári heimsmeistari stúlknalandsliða U17 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert