Það var að toga dálítið í okkur

Ingvar Ásbjörn Ingvarsson fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Ingvar Ásbjörn Ingvarsson fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Kristófer Sigurgeirsson, þjálfari Leiknis R., var að vonum sáttur eftir að liðið vann sanngjarnan 1:0 sigur á Fylki í 15. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Leiknir siglir lygnan sjó um miðja deild en spilaði frábærlega gegn einu besta liði deildarinnar, af hverju komu svona frammistöður ekki fyrr í sumar?

„Þetta er góð spurning en okkur hefur að vísu gengið ágætlega með toppliðin. Við unnum Keflavík og áttum góðan leik á móti Þrótti, það er eins og við stígum aðeins upp gegn þeim stóru en það er alveg rétt að við þurfum að gera það í hinum leikjunum.“

Hvað skóp þennan sigur í kvöld?

„Vinnusemin og skipulagið. Við fórum aðeins í taktíkina sem við notuðum gegn FH um daginn og það greinilega svínvirkar.“

Leiknir hefur nú unnið báða leiki sína eftir að bikarævintýrið endaði eftir leikinn gegn FH í undanúrslitum, hafði sú keppni mikil áhrif á frammistöðuna í deildinni?

„Já ég hef sagt að það hafði áhrif en það er hrikalega leiðinleg afsökun. Það var bara frábær keppni fyrir okkur og við höfðum aldrei farið svona langt og þetta var hrikalega gaman. En það var líka langt á milli leikja, það var dregið og svo voru 3-4 vikur í leik og við þurftum að spila nokkra leiki þar á milli. Ég viðurkenni það alveg að það var að toga dálítið í okkur.“

Anton Freyr Ársælsson kom á láni til Leiknis frá Fjölni í sumarglugganum en hann átti prýðisleik í kvöld, hvernig metur Kristófer hans framlag?

„Hann er hrikalega flottur strákur sem ég þekki ágætlega úr Fjölni. Hann er svona akkúrat týpan sem við vorum að leita að og Brynjar [Hlöðversson] fær að vera aðeins meira laus sem hentar honum mjög vel.“

Það vakti athygli að margir ungir strákar úr 2. flokk Leiknis voru á bekknum í kvöld og fékk meðal annars Daníel Finns Matthíasson, fæddur árið 2000, að koma inn á í kvöld. Er það markmiðið út tímabilið að leyfa yngri strákum að spreyta sig í aðalliðinu?

„Algjörlega, ég mun aldrei vera hræddur við að nota unga leikmenn, ég vil að þeir séu notaðir. Þetta eru strákar sem eru 16-17 ára og það hlýtur að vera betra fyrir þá að fá smjörþefinn áður en þeir verða 19-20 ára. Ég held að þetta hjálpi bæði þeim persónulega og að verða alvöru leikmenn fyrir Leikni."

mbl.is