Langþráður úrslitaleikur FH

Davíð Þór Viðarsson mun fara fyrir FH-ingum í bikarúrslitaleiknum í …
Davíð Þór Viðarsson mun fara fyrir FH-ingum í bikarúrslitaleiknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum að fara í þennan bikarúrslitaleik í fyrsta sinn frá árinu 2010 svo það er mikil tilhlökkun,“ segir Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, um bikarúrslitaleikinn við ÍBV á Laugardalsvelli í dag. Þessi lið mættust í undanúrslitum í fyrra þar sem ÍBV hafði betur, en þrátt fyrir sigurgöngu Hafnfirðinga hér á landi síðustu ár hefur liðinu yfirleitt gengið illa í bikarnum og því er vonast eftir langþráðum bikarmeistaratitli í dag.

„Við komumst í undanúrslit í fyrra en áttum svo sannarlega ekki skilið að komast í úrslitaleikinn miðað við hvernig við spiluðum þar við ÍBV. En fyrir utan það höfum við ekki komist nálægt því að fara í þennan leik, svo það er virkilega spennandi og verður gaman að fá að taka þátt í þessu,“ segir Davíð, en hefur bikarinn þá setið á hakanum í Hafnarfirðinum síðustu ár eða hvað veldur?

„Þegar komið hefur að þessum bikarleikjum höfum við bara einhvern veginn ekki náð okkur á strik. Liðið fer inn í öll mót með það að markmiði að komast alla leið, en það hefur líka verið mikið leikjaálag á okkur undanfarin ár og við kannski ekki haft þann kraft sem þarf til þess að fara alveg 100% í þessa bikarleiki. En við höfum gírað okkur vel upp í þetta í ár og erum komnir þangað sem við vildum komast. Það er nú okkar að klára dæmið,“ segir Davíð.

Man vel eftir fyrsta titlinum

Davíð var sjálfur í liði FH sem vann sinn fyrsta bikarmeistaratitil árið 2007. Hann man vel eftir þeirri stund og skiljanlega er löngunin mikil að endurtaka leikinn.

„Þetta er náttúrlega mjög skemmtilegt augnablik að vinna þennan titil, en það er ekki síður gaman að fá að taka þátt í þessum leik. Þetta er stærsti einstaki leikurinn á Íslandi á hverju ári og alltaf mikil stemning í kringum hann sem er eitthvað sem maður man vel eftir,“ segir Davíð.

Greinina í heild sinni má finna í 12 síðna sérblaði sem fylgir Morgunblaðinu í dag um bikarúrslitaleik karla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert