Dramatískur sigur FH í Árbænum

Caroline Murray með boltann í leiknum í dag. Fylkiskonurnar Maruschka …
Caroline Murray með boltann í leiknum í dag. Fylkiskonurnar Maruschka Waldus og Brooke Hendrix eru til varnar. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir

FH hafði betur gegn Fylki, 1:0 á útivelli í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag. Megan Dunnigan skoraði sigurmark FH í blálokin og verður sigurinn að teljast sanngjarn.

FH var sterkari aðilinn á fyrstu mínútunum en það gekk illa að skapa alvöru færi. Gestirnir áttu nokkrar tilraunir á fyrstu 20 mínútunum en þær voru utan teigs og hittu ekki á markið. Kaitlyn Johnson átti einu tilraun Fylkis á fyrstu 20 mínútunum en skot hennar utan teigs fór yfir markið.

Eftir það róaðist leikurinn töluvert og hvorugt liðið skapaði sér færi og var staðan markalaus í leikhléi.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri endaði, leikurinn var mjög rólegur og nánast ekkert um færi. Eftir því sem leið á hálfleikinn færðist hins vegar meira líf í leikinn og FH komst nærri því að skora. Guðný Árnadóttir skoraði úr aukaspyrnu af mjög löngu færi gegn Haukum í síðustu umferð og hún endurtók næstum leikinn á 61. mínútu í dag. Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir varði hins vegar spyrnu hennar af um 35 metra færi í slána.

Alda Ólafsdóttir var næstum búin að skora úr fyrstu snertingu sinni eftir að hafa komið inn á sem varamaður en Ásta varði skalla hennar af stuttu færi virkilega vel. Fjórum mínútum síðar átti Caroline Murray skot í varnarmann og í slána, en Fylkiskonur sluppu enn og aftur með skrekkinn. Á 80. mínútu voru FH-konur aftur nálægt því að skora en skot Helenu Óskar Hálfdánardóttur af stuttu færi eftir hornspyrnu hafnaði í stönginni.

Mark FH kom þó að lokum og það á síðustu mínútunni. Diljá Ýr Zomers átti þá fallega fyrirgjöf á kollinn á Megan Dunnigan, sem skallaði í netið af stuttu færi. Eftir úrslitin er Fylkir enn í næstneðsta sæti, fjórum stigum frá öruggu sæti. FH er enn í sjötta sæti, nú með 18 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Fylkir 0:1 FH opna loka
90. mín. Megan Dunnigan (FH) skorar 0:1 - Diljá á fallega fyrirgjöf, beint á kollinn á Dunningan sem skallar í netið af stuttu færi. Þetta mark gæti reynst Fylkiskonum dýrkeypt í lok sumars!
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert