Meiri gleði og ánægja í þessu

Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir ver vel gegn Þór/KA
Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir ver vel gegn Þór/KA mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir, markmaður Fylkis, spjallaði við mbl.is eftir tap gegn FH á heimavelli í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Sigurmark FH kom á síðustu mínútunni og var Ásta vissulega svekkt. 

„Þetta er mjög svekkjandi tap, við missum einbeitinguna aðeins. Við reyndum að sækja of mikið og við gleymum okkur í vörninni. Við verðum að sinna því hlutverki, en nú þýðir ekkert annað en að halda áfram."

Hún var ekki sérstaklega ánægð með spilamennsku liðsins í kvöld. 

„Við hefðum getað spilað betur í fyrri hálfleik, við vorum ekki alveg mættar í honum. Við vorum að leyfa þeim að komast auðveldlega í færi. Við áttum sérstaklega að gera betur í fyrri hálfleik en spilamennskan heilt yfir hefði mátt vera betri."

Var spilamennskan ekki eins góð og í jafnteflinu við Þór/KA í síðasta leik? 

„Ekki alveg eins. Við vorum grimmari og okkur langaði meira í sigurinn gegn Þór/KA heldur en í dag, þó okkur langaði auðvitað í sigurinn í dag. Það sást hins vegar betur í Þór/KA leiknum."

Fylkir hefur litið ágætlega út eftir EM hléið og þá sérstaklega gegn Þór/KA í síðustu umferð. Hún segir Hermann Hreiðarsson, þjálfara liðsins, hafa komið vel inn í hlutina, en hann tók við liðinu fyrir hléið.  

„Við fengum þrjá nýja leikmenn sem eru sterkir og góðir. Nýja kerfið okkar er að ganga vel og Hemmi fór vel í það kerfi og við höfum verið að vinna í því í hléinu. Hann er búinn að koma mjög vel inn í þetta. Hann og Siggi hafa komið sterkir inn og það er meiri gleði og ánægja í þessu."

Fylkir er fimm stigum frá öruggu sæti í deildinni en þrátt fyrir það metur Ásta möguleikana á að liðið haldi sér uppi góða. 

„Ég met þá góða miðað við hvernig við spiluðum við Þór/KA. Þá sýndum við að við getum unnið stóru liðin. Við þurfum að ná stigum af þeim og klára þetta með stæl."

Einhverjir sparkspekingar hafa ekki trú á því að Fylkir nái að halda sér uppi, en Ásta segir það einungis hjálpa liðinu. 

„Ef maður fær eitthvað á móti sér heldur maður áfram og kemur sterkari út úr því," sagði Ásta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert