Ekki allt fengið með því að vera fleiri

Logi Ólafsson.
Logi Ólafsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er alltaf gleði þegar þú vinnur leik, því þetta snýst allt um sigra og stig og það er það sem við þurftum,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings R., í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur á Blikum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Víkingar voru manni fleiri á vellinum frá 78. mínútu en þeir áttu erfitt með að nýta sér liðsmuninn. Áður höfðu þeir lent undir strax á þriðju mínútu.

„Við erum að hugsa um að sækja um leyfi hjá knattspyrnusambandinu að hefja ekki leik fyrr en eftir sjö, átta mínútur þá kannski höldum við markinu hreinu. Við erum í vandræðum í upphafi leiks og við vitum að Breiðablik er mjög vel spilandi lið. Svo þetta var erfitt þrátt fyrir að við værum einum fleiri,“ sagði Logi.

„Það er ekki allt fengið með því að vera einum fleiri þó það sé ákveðinn kostur. Þeir liggja með tvær fjögurra manna línur og það getur verið erfitt að finna leið í gegn. Það er alveg sama hvaða lið eiga í hlut, þetta verður alltaf erfitt og það lið sem lendir í því að vera tíu liggur aftarlega og þetta verður alltaf erfitt,“ sagði Logi, en hann er ánægður hvernig Víkingar héldu aftur af fljótum sóknarmönnum Blika sem sköpuðu þó nokkurn usla.

„Það er það sem ég var alltaf skíthræddur við, svo þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég mjög ánægður hvernig við leystum það,“ sagði Logi, en leikurinn var nokkuð harður og mikið að gerast.

„Það er eins og einhver sagði fyrir leikinn að þetta var þrungið tilfinningaböndum. Fyrrverandi þjálfari Víkings er þjálfari Breiðabliks svo það var ýmislegt annað sem hafði áhrif á þennan leik,“ sagði Logi Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert