Frá Miðjarðarhafinu og spilar af ástríðu

Gunnar Þorsteinsson
Gunnar Þorsteinsson mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Eftir hörmungina síðustu fjóra leiki og öll þau færi sem við áttum í þessum leik þá fannst mér þetta fullkomlega skilið, það er gott að vera byrjaðir að grafa okkur upp úr þessari holu sem við vorum komnir í,“ sagði Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur, eftir 3:2 sigur á ÍA í æsispennandi leik í 15. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Eftir fjóra tapleiki í röð og misnotuð dauðafæri í fyrri hálfleik komst ÍA yfir snemma í þeim síðari þá virtist þetta ætla að verða einn af þessum dögum, var Gunnar farinn að hafa áhyggjur?

„Ef Andri hefði klikkað á fyrra vítinu þá hefðum við kannski getað farið að pakka saman! Þetta er bara einkennandi fyrir þennan hóp, við erum að eiga okkar annað tímabil saman, og við höfum sýnt það hvað eftir annað að þegar við erum með bakið upp við vegg þá erum við bestir.“

Juan Manuel Ortiz átti ótrúlega innkomu þegar hann kom inn á fyrir Aron Frey Róbertsson á 69. mínútu. Fyrst fiskaði hann seinna víti Grindvíkinga og svo skoraði hann sigurmarkið undir lokin og reif sig úr treyjunni í fagnaðarlátunum sem skilaði honum gulu spjaldi. Hann fékk svo sitt annað gula spjald og þar með rautt nokkrum mínútum síðar fyrir brot, hvernig mat Gunnar hans innkomu?

„Hann er frá Miðjarðarhafinu og spilar af ástríðu. Hann er búinn að vera mikið meiddur og það sáu allir á vellinum gleðina þegar hann skoraði markið og hversu miklu máli þetta skipti. Auðvitað var þetta klaufalegt en hann er bara ákafur að reyna vinna boltann, hann vill sækja til sigurs. Það er betra að vera með þetta hugarfar en að bakka alltaf og fara ofan í skelina. Hann er bara ástríðufullur og gleymir sér aðeins í hita leiksins og fer úr að ofan en við fyrirgefum honum það, hann skoraði sigurmarkið.“

Grindavík er nú komið með 24 stig, er liðið alveg laust við falldrauginn?

„Það hefur aldrei gerst, í 12 liða deild, að lið falli með 24 stig. Núna geta allir hætt að tala um Grindavík í einhverri fallbaráttu og við getum farið að einbeita okkur að því að gera betur en Grindavík hefur nokkurn tímann gert í efstu deild,“ sagði Gunnar að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert