Hann er tilfinningasprengja

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef ég á að finna eitthvað orð yfir þetta þá er það léttir, rosalegur léttir,“ sagði Óli Stefán Flóventsson eftir að Grindavík vann langþráðan 3:2 sigur á ÍA í 15. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Grindavík hafði tapað síðustu fjórum leikjum sínum fyrir þetta.

„Í síðasta leik var ég reiður en við höfum verið að spila oft vel í þessum fjórum tapleikjum og í dag einbeittum við okkur að því að reyna lengja þá kafla og ég er rosalega ánægður með það.“

Eftir slæmt gengi undanfarið og öll þau færi sem fóru forgörðum hjá Grindavík í dag, var Óli einhvern tímann farinn að efast um að þetta myndi takast í kvöld?

„Þegar Alexander og René klikkuðu á dauðafærum þá hélt ég að við værum að fara í gegnum enn einn svona kafla en þetta var gífurlega sterkt hjá strákunum að halda áfram. Við lendum tvisvar undir á móti sterku Skagaliði, þeir eru svo sterkir líkamlega, og það er erfitt að spila á móti þeim og þess vegna er ég mjög ánægður með þá, að koma til baka tvisvar sinnum og klára þennan leik.“

Gunnar Þorsteinsson, fyrirliði Grindavíkur, spilaði sem einn af þremur hafsentum liðsins í kvöld en hann er miðjumaður að upplagi, hvað lá að baki þeirrar breytingar?

„Ég vildi hafa vinstrifótar mann niðri í hafsentinum þar vegna þess að það gefur okkur meiri möguleika sóknarlega. Einnig að fá svona leiðtoga niður í öftustu línu, það er búið að vera bras á okkur og þá er rosalega gott að hafa Gunna til að stýra þarna aftan frá og hann brást mér ekki í dag.“

Juan Manuel Ortiz átti skrautlega innkomu af varamannabekknum fyrir Grindavík í dag. Hann fiskaði víti, skoraði sigurmarkið og fékk að lokum rautt spjald, hvernig mat Óli hans innkomu?

„Ég er gríðarlega ánægður með hann í dag. Þó hann hafi gert mistök að hafa farið úr að ofan í fagninu þá fyrirgef ég honum algjörlega. Hann er tilfinningasprengja, hann gefur alltaf allt í þetta og á endanum var það hans innkoma sem réði úrslitum í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert