„Kannski er maður bara allt of kurteis“

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, var afar ósáttur þegar Óttar Bjarni …
Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, var afar ósáttur þegar Óttar Bjarni Guðmundsson Stjörnumaður slapp með áminningu eftir brot á Ásgeiri Sigurgeyrssyni í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Túfa, þjálfari KA, var fenginn í viðtal eftir 1:1 jafntefli KA og Stjörnunnar í Pepsi-deild karla á Akureyri í kvöld. KA leiddi 1:0 í hálfleik en missti svo mann af velli og Stjarnan jafnaði á 85. mínútu.

„Ég er ánægður með mína leikmenn en ekki með úrslitin. Við lögðum svakalega mikið í leikinn í dag og mér fannst liðið bara flott. Varnarskipulagið var gott og skyndisóknirnar voru hættulegar. Við fengum svo tækifæri til að bæta við forustuna og klára leikinn. Ég er því sár með þessa niðurstöðu.“

Fannst þér misræmi í dómum þegar Aleksandar Trninic fékk rautt spjald en Óttar Bjarni Guðmundsson bara gult?

„Mér fannst mjög grimmt að Aleksandar hafi verið rekinn af velli. Þetta var harður leikur og menn eru alltaf að stoppa skyndisóknir með brotum. Þetta gerist trekk í trekk og mér fannst ekki rétt að gefa rautt spjald í jafn áköfum leik þar sem mikið var um tæklingar og baráttu úti á vellinum. Dómarinn leyfði dálítið mikið til að byrja með en kom svo með þetta. Hefði hann svo haldið sömu línu þá hefði hann átt að reka Stjörnumanninn af velli. Þetta var svipað atvik og við vorum að sleppa í gegn. Ég er ósáttur með hans frammistöðu því ég virði hann og aðra dómara. Kannski er maður bara allt of kurteis. Ég reyni að vera kurteis og sýni dómurunum virðingu en maður fær greinilega ekkert fyrir það. Ég ætla samt að halda áfram að vera kurteis því ég er þannig týpa. Menn gera alveg mistök og ég get skilið það. Hins vegar vil ég að menn sjái aðalatriðin og markvörðurinn okkar er með takkaför á maganum sem komu þegar Stjarnan skoraði. Þar var um tæklingu að ræða á marklínunni. Spurning um brot þar. Annars var þetta bara hörkuleikur tveggja flottra liða. Stjarnan er eitt besta lið landsins og ég ber mikla virðingu fyrir þeim.“

Nú verða tveir lykilmenn í banni í næsta leik, þeir Emil Lyng og Aleksandar. Hvernig muntu takast á við það?

„Það er vont að missa leikmenn í bann. Ég hef ítrekað það að ég er mjög ánægður með minn hóp og það verður allt klárt fyrir leikinn gegn Víkingum“ sagði Túfa að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert