Sáttur að ganga frá borði með stig

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég var sáttur við framlag leikmanna minna og þegar ég leikurinn er skoðaður í heild sinni þá er ég sáttur við að fá stig út úr þessum leik. Það var líka sanngjörn niðurstaða að mínu mati,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir markalaust jafntefli liðsins við KR í kvöld.

„Hvorugt liðið skapaði sér mörg opin marktækifæri og þetta var stál í stál. Leikir eins og þessi vinnast oft á augnablikum þar sem leikmenn gleyma sér. Það var ekki uppi á teningnum að þessu sinni og jafntefli því staðreynd. Við vorum kannski full varkárir á köflum og hefðum getað verið kaldari þegar við vorum að sækja,“ sagði Ólafur um þróun leiksins.

„Við lögðum upp með að fá ekki á okkur mark og gera betur en í síðasta leik gegn FH. Af þeim sökum var það sterkur varnarleikur sem varð ofan á að þessu sinni. Við náðum að halda hreinu og spiluðum mun betur í þessum leik en á móti FH og ég er sáttur við það,“ sagði Ólafur enn fremur um það hvernig leikurinn spilaðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert