Tvö rauð spjöld í jafntefli fyrir norðan

KA og Stjarnan mættust á Akureyri í Pepsi-deild karla í kvöld. Bæði lið urðu að hirða öll stigin til að koma sér á betri stað og var því hart barist. Lauk leiknum með 1:1 jafntefli og verða það að teljast sanngjörn úrslit.

Leikurinn byrjaði afar rólega en um miðjan fyrri hálfleik fóru liðin að skiptast á sóknum. Garðbæingar voru öllu meira með boltann og virkuðu hættulegri en það voru KA-menn sem skoruðu eina mark hálfleiksins. Var þar á ferðinni Ásgeir Sigurgeirsson, sem virðist hafa verið í klakaböndum í síðustu leikjum. Hann stakk sér í gegnum vörnina og afgreiddi erfiðan bolta í fjörhornið.

KA spilaði manni færri nær allan seinni hálfleikinn eftir að Aleksandar Trninic var rekinn í bað. Tókst norðanmönnum vel upp í varnarleik sínum lengi vel en Stjörnumenn voru mest í háum boltum inn á teig. Ein þeirra skilaði marki þegar skammt var eftir. Fylgdi þá Jósef Kristinn Jósefsson eftir skalla Guðjóns Baldvinssonar sem Rajko hafði varið. Skömmu áður hafði Emil Lyng brennt af dauðafæri fyrir KA og Óttar Bjarni Guðmundsson var heppinn að hafa ekki fengið snemmbúið bað eftir svakalegt brot á Ásgeiri Sigurgeirssyni. Hólmbert Aron Friðjónsson fékk reyndar rautt spjald í blálokin þannig að rauðu spjöldin urðu eftir allt saman tvö í leiknum.

Stjarnan náði ekki að saxa á forskot toppliðs Vals en KA náði í dýrmætt stig í baráttu liðsins í neðri hluta deildarinnar og þokaði sér upp fyrir Blika sem töðuðu fyrir Reykjavíkur-Víkingum.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

KA 1:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Eyjólfur Héðinsson (Stjarnan) fær gult spjald +7
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert