Við erum ekkert að grenja þetta

Gunnlaugur Jónsson
Gunnlaugur Jónsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta eru fyrst og fremst vonbrigði. Við komumst tvisvar yfir, eigum fína kafla í þessum leik, liðin skiptust á að hafa yfirhöndina og þetta var kaflaskipt. En eftir þetta geggjaða annað mark þá hélt ég að við myndum hafa þetta en svo settu Grindvíkingar í mikinn sóknarþunga og við áttum í erfiðleikum með það,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, eftir 3:2 tap á útivelli gegn Grindavík í 15. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Skagamenn komust tvisvar yfir í leiknum en í bæði skiptin jafnaði Andri Rúnar Bjarnason fyrir Grindavík úr vítaspyrnum, var Gunnlaugur ósáttur með dómgæsluna?

„Ég er í erfiðri aðstöðu til að sjá það. Strákarnir tala um að seinna vítið hafi verið ódýrt, að dómarinn hafi ekki einu sinni vitað það sjálfur hver braut en ég þarf bara að sjá þetta í sjónvarpinu. Ég man ekki betur en að við hefðum átt að fá víti í fyrri hálfleik en ég fæ voða lítið fyrir að vera grenja um það núna. Við þurfum að einbeita okkur að því að bæta okkar leik, við eigum stórleik næsta sunnudag gegn ÍBV. Þar verðum við að vera klárir en ekki að vera hér og væla og skæla, við gerðum ekki nóg til að vinna leikinn og verðum að læra af því.“

Skagamenn voru með forystu í tvígang í kvöld en náðu þó ekki að hala inn mikilvægum stigum í fallbaráttunni. Var þetta ekki dæmigerður endi fyrir lið sem er að berjast á vitlausum enda töflunnar?

„Það virðist oft fylgja liðum sem gengur illa að sjálfstraustið er slæmt en við mættum liði í dag sem hefur fengið dálítið af höggum á sig líka. Þess vegna er ég sár að við skyldum ekki fylgja eftir góðum leik gegn KR þar sem við voru þéttir fyrir og spiluðum agaðan varnarleik. Við gerðum ekki nóg í dag til að verja mark okkar gegn liði eins og Grindavík sem er með mjög gott sóknarlið en við eigum að gera betur í dag.“

Sóknarmaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson yfirgaf ÍA á dögunum til að ganga til liðs við Halmstad í Svíþjóð, það hlýtur að vera eftirsjá að honum?

„Þetta var best í stöðunni fyrir alla aðila. Auðvitað er vont að missa hann, ekki spurning, en menn verða einfaldlega að stíga upp. Steinar [Þorsteinsson] kom ágætlega inn í dag og hann er strákur á mikilli uppleið sem á eftir að springa út og við eigum fleiri slíka. Við erum ekkert að grenja þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert