Komumst ekki í fimmta gír nógu snemma

Gunnar Heiðar Þorvaldsson í leiknum í kvöld.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta var ekki nógu gott í dag,“ sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson, leikmaður og aðstoðarþjálfari ÍBV eftir 0:1 tap á heimavelli gegn Víkingi Ólafsvík í Pepsi deild karla í dag. 

„Við erum búnir að spila rosalega vel síðustu leiki og komnir með sjálfstraust og svoleiðis en mér fannst við ekki nýta það nógu vel í dag. Mér fannst við vera of lengi í gang og of passívir í fyrri hálfleik og svo fáum við þetta skítamark á okkur. Við nýtum ekki okkar færi og náum ekki að opna þá. Svona er fótboltinn,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is eftir leik. 

Eyjamenn urðu bikarmeistarar á laugardaginn og fögnuðu því vel um kvöldið.  

„Já ég held að það sé gömul klisja. Við vorum bara alltof lengi í gang ég veit ekki hvort það sé einhver þreyta. Við vorum bara ekki komnir í þennan 5. gír nógu snemma og við látum þá líta ágætlega út í fyrri hálfleik í staðinn fyrir að keyra yfir þá eins og við höfum gert við öll þessi lið sem við höfum mætt í síðustu leikjum,“ sagði Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert