Tvö mörk Hólmfríðar dugðu til sigurs

Caroline Murray og Ásdís Karen Halldórsdóttir í baráttunni í kvöld.
Caroline Murray og Ásdís Karen Halldórsdóttir í baráttunni í kvöld. Ljósmynd/Hanna

KR tók á móti FH á Alvogenvellinum í 13. umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld en bæði lið mættu til leiks full sjálfstraust eftir að hafa unnið í síðustu umferð. KR vann að lokum 2:1 sigur og fékk þrjú mikilvæg stig í fallbaráttunni.

Liðin skiptust á að sækja framan af í fyrri hálfleik en gæðin vantaði til að binda lokahnútinn á sóknirnar. Það var ekki fyrr en á 44. mínútu að ísinn var loks brotinn. Katrín Ómarsdóttir tók þá aukaspyrnu og sendi boltann háan inn í teig þar sem Hólmfríður Magnúsdóttir reis hæst og skallaði hann í stöngina og inn.

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði sitt annað mark og tvöfaldaði forystuna á 73. mínútu eftir góðan undirbúning og fyrirgjöf frá Ásdísi Kareni Halldórsdóttur en FH-ingar gáfust ekki upp og á 78. mínútu minnkaði Megan Dunnigan muninn eftir að vörn KR hafði mistekist að bægja hættunni frá eftir langt innkast.

FH-ingar pressuðu stíft á lokamínútunum en tókst ekki að jafna leikinn. KR-ingar unnu því mikilvægan sigur og eru nú með 12 stig í 8. sætinu, sjö stigum frá fallsæti. FH er áfram í 6. sæti með  18 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

KR 2:1 FH opna loka
90. mín. Anna Birna Þorvarðardóttir (KR) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert