Eru sannir víkingar

Abel Ferreira.
Abel Ferreira. Ljósmynd/Braga

„Þetta voru sanngjörn úrslit en við þurftum að hafa fyrir sigrinum gegn baráttuglöðu liði FH,“ sagði Abel Ferreira þjálfari Braga við mbl.is eftir sigur sinna mann gegn FH, 2:1, í fyrri viðureign liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á Kaplakrika í kvöld.

„FH byrjaði leikinn vel og það skapaði usla í vörn okkar með sendingum inn fyrir vörnina og markið þeirra var einstaklega glæsilegt. Ég ræddi vel við leikmenn í hálfleiknum og skilaboðin frá mér til þeirra var að keyra upp hraðann og færa boltann hraðar á milli leikmanna. Þeir gerðu það og við það náðum við góðum tökum á leiknum,“ sagði Ferreira.

Spurður hvort Braga eigi ekki greiða leið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar eftir úrslitin í kvöld sagði Ferreira;

„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vera á varðbergi. Við erum auðvitað í góðri stöðu eftir þessi úrslit en mótherjarnir eru hættulegir og við vanmetum þá ekki í seinni leiknum frekar en í kvöld.

Við verðum að byrja miklu betur heldur en við gerðum í kvöld. Það er gríðarleg barátta í leikmönnum FH. Mér fannst FH spila vel og leikmenn liðsins gefa ekkert eftir og leika svo sannarlega með hjartanu. Þeir eru stór og sterkir og eru sannir víkingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert