FH á litla möguleika

Íslandsmeistarar FH eiga litla möguleika á að komast í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu eftir 2:1 tap gegn portúgalska liðinu Braga í fyrri viðureign liðanna í umspili um sæti í riðlakeppninni en liðin áttust við í Kaplakrika í kvöld.

FH-ingar voru 1:0 yfir eftir fyrri hálfleikinn eftir stórglæslegt mark frá Halldóri Orra Björnssyni sem skrúfaði boltann efst upp í markhornið eftir að hafa fengið laglega sendingu frá Steven Lennon. FH-ingar voru agaðir og skipulagðir í leik sínum í fyrri hálfleik og komst Braga lítt áleiðis gegn baráttuglöðum leikmönnum FH.

Leikmenn Braga komu mjög ákveðnir til leiks í síðari hálfleik þar sem þeir keyrðu upp hraðann. Þeim tókst að snúa leiknum sér í vil með tveimur mörkum á 18 mínútna kafla en í bæði skiptin komust liðsmenn Braga í færi eftir sendingar inn fyrir vörnina. Paulinho skoraði a 62. mínútu og Nikola Stoiljkovic sigurmarkið á 79. mínútu eftir að Emil Pálsson, nýkominn inná sem varamaður, missti boltann klaufalega frá sér á miðsvæðinu.

FH-ingar náðu ekki að fylgja eftir góðum leik í fyrri hálfleik og líklegt er að leikurinn í Portúgal eftir viku verði síðasti Evrópuleikur FH á þessu tímabili. FH-ingar geta þó borið höfuðið hátt eftir leikinn í kvöld. Þeir veittu Braga-liðinu verðuga keppni en var refsað grimmilega fyrir mistök af þrautreyndu atvinnumannaliði sem hefur gert það gott í Evrópudeildinni á undangengnum árum.

FH 1:2 Braga opna loka
90. mín. Fransérgio (Braga) fær gult spjald
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert