Grindavík náði í stig í Eyjum

Cloé Lacasse skorar með skoti af löngu færi. Linda Eshun …
Cloé Lacasse skorar með skoti af löngu færi. Linda Eshun reynir að verjast. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV og Grindavík mættust í 13. umferð Pepsi-deildar kvenna í Vestmannaeyjum í dag. Svo fór að liðin gerðu 2-2 jafntefli eftir hörkuleik í rokinu í Eyjum. 

Cloé Lacasse kom ÍBV yfir strax á 3. mínútu leiksins með marki utan af kanti. ÍBV voru mikið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, miklu meira með boltann og áttu fjöldann allan af færum. 

Seinni hálfleikur var fjörugri og á 57. mínútu skoraði Kristín Anítudóttir frábært mark beint úr aukaspyrnu langt utan af velli og staðan orðin 1-1. Eyjakonur sóttu meira og uppskáru þegar Kristín Erna Sigurlásdóttir kom þeim aftur yfir á 67. mínútu með skoti í teig Grindvíkinga. Á 81. mínútu gerði Caroline Slambrouck slæm mistök í vörn Eyjakvenna og Grindvíkingar sluppu í gegn sem endaði með marki frá Maríu Sól Jakobsdóttur. Þar við sat og niðurstaðan jafntefli. Grindvíkingar sáttari með stigin en ÍBV og eru þetta slæm úrslit fyrir Eyjakonur í toppbaráttunni en ÍBV mætir FH á útivelli í næstu umferð á þriðjudaginn kemur. Grindavík fær Val í heimsókn á miðvikudaginn.

ÍBV 2:2 Grindavík opna loka
90. mín. Grindavík fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert