Trúa því að draumurinn geti ræst

Davíð Þór Viðarsson með Íslandsmeistarabikarinn.
Davíð Þór Viðarsson með Íslandsmeistarabikarinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Auðvitað er mikið í húfi en það er engin aukin pressa á okkur,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, í samtali við mbl.is í aðdraganda viðureignarinnar við Braga frá Portúgal í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur. Liðin mætast í fyrri leiknum í Kaplakrika í kvöld.

„Við erum að spila á móti mjög sterku liði og það erum við sem erum litli aðilinn í þessum leik. Við getum því komið pressulausir inn í þetta einvígi, en viljum klárlega spila þannig leik að við séum ennþá inni í einvíginu fyrir seinni leikinn og það er okkar stefna,“ sagði Davíð.

FH er sem fyrr segir aðeins tveimur leikjum frá því að spila í riðlakeppninni í vetur. Er hægt að lýsa þeirri löngun að komast alla leið?

„Við fórum í þessa leiki 2013 og vorum nálægt því 2014, svo okkur finnst við vera að færast nær þessu. Löngunin er virkilega mikil og þetta mundi breyta landslaginu hjá okkur og að einhverju leyti líka í íslenskum fótbolta. Það er ótrúlega gaman að fá að taka þátt í því. En þetta er ekkert sem við missum svefn yfir. Við vitum að þetta er kannski meiri draumur heldur en markmið, en að vera kominn þó þetta nálægt þessu þá höfum við það mikla trú á sjálfum okkur að við teljum þetta vera gerlegt,“ sagði Davíð.

Kassim Doumbia, Davíð Þór Viðarsson, Atli Guðnason og Bergsveinn Ólafsson.
Kassim Doumbia, Davíð Þór Viðarsson, Atli Guðnason og Bergsveinn Ólafsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fáum vonandi fullt af fólki í stúkuna

Davíð á ekki von á því að FH fái mikið af færum, en skipulagið þurfi að halda.

„Okkar styrkleikar í þessari Evrópukeppni hafa legið í því að við erum mjög skipulagðir og það hefur verið erfitt að brjóta okkur niður. Svo höfum við á köflum sýnt ágætistakta sóknarlega, en vantað herslumuninn að skapa opnari færi. En þannig er það líka, þegar þú ert kominn svona langt í Evrópukeppni þá ertu ekki að fara að fá mikið af færum,“ sagði Davíð og telur gott að byrja einvígið á heimavelli.

„Já, ég held að það sé fínt fyrir okkur að byrja heima. Við fáum vonandi fullt af fólki í stúkuna og góðan stuðning. Við getum vonandi strítt þeim hérna og sett pressu á þá fyrir seinni leikinn. Ég held að það sé aldrei gott fyrir stór lið að eiga heimaleikinn eftir og vera í erfiðri stöðu. Þá eru áhorfendurnir kannski fljótir að pirra sig og það mundi bara hjálpa okkur.“

Davíð Þór Viðarsson.
Davíð Þór Viðarsson. mbl.is/Eva Björk

Evrópuleikirnir bjarga sálartetrinu

FH tapaði sem kunnugt er bikarúrslitaleiknum við ÍBV á laugardag, hvernig er að komast yfir það og einbeita sér að svona stórum leikjum strax í kjölfarið?

„Sem betur fer eigum við þessa Evrópuleiki eftir og ég held að það hafi aðeins bjargað sálartetrinu eftir vonbrigðin á laugardaginn. En við þurfum bara að vera nógu miklir menn til að viðurkenna það að við áttum slæman dag á laugardaginn og Eyjamenn áttu þetta skilið,“ sagði Davíð.

FH átti að mæta KR á sunnudag á milli þessara Evrópuleikja en þeirri viðureign var frestað. FH-ingar ná því alfarið að helga sig Braga.

„Nú er það bara okkar að láta það telja, að við höfum að einhverju að keppa í seinni leiknum. Það er mjög gott að fá þessa viku, bæði til að hvíla lúin bein og líka setja upp seinni leikinn,“ sagði Davíð Þór Viðarsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert