Skoruðum tvö sem dómarinn tók af okkur

Kristján Örn Sigurðsson
Kristján Örn Sigurðsson mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það er svekkjandi að hafa ekki náð að vinna, við þurftum að vinna í dag til að halda okkur nálægt toppbaráttunni en það gekk ekki,“ sagði Kristján Örn Sigurðsson, svekktur í bragði eftir 2:2 jafntefli við Fram í 17. umferð Inkasso-deild karla.

„Mér fannst við spila mjög vel miðað við síðustu leiki. Við náðum að lyfta okkur vel upp en náðum ekki að vinna þrátt fyrir að við höfðum skapað meira en þeir. Við skorum svo tvö mörk sem dómarinn tók af okkur.“

Heimamenn voru dæmdir brotlegir í teignum í tvö skipti í fyrri hálfleik þegar þeir komu boltanum yfir línuna. Kristján var dæmdur brotlegur í fyrra skiptið og var ósáttur við dóminn.

„Þetta er aldrei aukaspyrna. Markmaðurinn hleypur utan í mig og ég geri ekki neitt. Markmaðurinn lendir í grasinu og dómarinn flautar. Það er kannski verið að verja markmanninn einum of mikið einstaka sinnum.“

Kristján viðurkennir að draumur Þórsara um sæti í efstu deild að ári sé orðinn afar fjarlægur.

„Já, eftir tvo síðustu leiki, aðeins tvö stig í þeim þá er þetta orðið mjög erfitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert