Veit ekki hvað dómarinn skráir

Sigurpáll Melberg Pálsson
Sigurpáll Melberg Pálsson Ljósmynd/Hanna

„Auðvitað vill maður alltaf vinna en ég er svo sem sáttur við stigið og virði það,“ sagði Sigurpáll Melberg Pálsson, fyrirliði Fram eftir 2:2 jafntefli við Þór í 17. umferð Inkasso-deildar karla.

Framarar komu tvisvar til baka í leiknum, og jafnaði liðið leikinn seint í seinni hálfleik þrátt fyrir að spilamennskan hafi ekki verið góð á köflum seinni hálfleiks.

„Vindurinn og veðrið spilaði inn í, við vorum að spila á móti vindi í seinni hálfleik. Við áttum erfitt með að finna spilið, vorum of mikið að setja boltann upp í vindinn og það var ekkert að gagnast okkur.“

Sigurpáll segir liðið vera að rétta úr kútnum eftir erfiða byrjun hjá nýjum þjálfara fyrr í sumar.

„Ég vil meina að þetta hafi byrjað sem undirbúningstímabil þegar Hipolito kemur inn. Hann kemur með sínar áherslur sem eru öðruvísi en Ási var með. Við erum að læra og þetta tekur allt saman tíma. Núna finnst mér vera mikill stígandi í liðinu og það sést leik eftir leik. Við erum taplausir í fjórum leikjum, ætlum að halda dampi og klára tímabilið með sæmd.“

Sigurpáll gerði fyrsta mark Fram í leiknum, þrátt fyrir að Guðmundur Magnússon hafi fagnað eins og markið væri hans. Aðspurður um málið sagði Sigurpáll:

„Jú vissulega setti ég boltann inn en ég veit ekki hvað dómarinn skráir niður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert