Þetta var rólyndisfótbolti

Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. Ljósmynd/Dave Lee

„Það er frábært að skora fjögur mörk og halda markinu hreinu, við erum að halda hreinu fjórða heimaleikinn í röð,“ sagði sigurreifur Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 4:0 sigur á Fjölni í 15. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Þótt sigurinn hafi verið stór var oft á tíðum jafnræði með liðunum og leikurinn var nokkuð hægur lengst af, var þetta ekki nokkuð jafn leikur, þrátt fyrir fjögurra marka sigur?

„Þetta verður oft svona þegar lið liggja aftarlega, við þurftum bara að reyna finna glufur í varnarleiknum þeirra. Það er styrkur að vinna þessa leiki, við vissum að þeir myndu liggja og bíða og við þurftum að vera þolinmóðir. Ég saknaði þess aðeins að við værum beinskeyttari en ég er bara hrikalega ánægður með sigurinn.“

„Þrátt fyrir að komast í 2:0 í fyrri hálfleik þá fannst mér vanta smá neista í leikinn, þetta var svona rólyndisfótbolti. Við töluðum svo um að koma með meiri kraft í seinni hálfleik og ég bara hrikalega sáttur með frammistöðu leikmanna, þeir voru agaðir og skipulagðir og það var lykillinn að þessum sigri.“

Fyrsta mark Stjörnunnar kom úr vítaspyrnu og í stöðunni 2:0 var mark dæmt af Fjölnismönnum vegna rangstöðu og var Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, ekki sáttur með dómara kvöldsins, hvað finnst Rúnari um það?

„Ég skil það vel að hann hafi verið fúll en ég sá þetta ekki nógu vel. Svona er það í fótbolta stundum, það er stutt á milli.“

Ólafur Karl Finsen byrjaði sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna í rúma tvo mánuði ásamt því að skora sitt fyrsta mark í sumar, hversu mikilvægur getur hann reynst Stjörnunni á endasprettinum?

„Ólafur er mikilvægur í okkar hópi og það er gott að hann sé að komast aftur af stað, bæði fyrir okkur og hann. Það styrkir liðið enn frekar að fá hann inn í þetta og það er gaman fyrir hann að skora þetta mark og vera kominn aftur.“

Stjarnan og Valur unnu bæði leiki sína í kvöld og er munurinn á liðunum því enn fimm stig, er Rúnar að hugsa mikið um toppbaráttuna?

„Það þýðir ekkert að vera pæla í hvað Valur er að gera, við þurfum bara að vinna okkar leiki. Við eigum FH næst og við þurfum að eiga okkar besta leik til að ná sigri þar,“ sagði Rúnar að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert