Áttum bara að klára þetta

Orri Þórðarson.
Orri Þórðarson. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

„Þetta var fínn leikur hjá okkur og miðað við hvernig hann þróaðist þá áttum við bara að klára þetta,“ sagði Orri Þórðarson, þjálfari FH, eftir 1:1 jafntefli gegn ÍBV á Kaplakrikavelli í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu.

ÍBV er með eitt skæðasta sóknarlið deildarinnar og Orri var sérlega ánægður með varnarleik síns liðs.

„Það má ekki líta af þeim þarna frammi, þær eru fljótar og góðar í fótbolta. Mér fannst okkar stelpur standa sig mjög vel, hjálpa hvor annarri og ég er ánægður með það, ÍBV er eitt af toppliðunum.“

Guðný Árnadóttir, varnarmaður FH, fór af velli í hálfleik og virtist leikur liðsins aðeins riðlast við það í upphafi síðari hálfleiks.

„Guðný er mikilvægur hlekkur hjá okkur og það var kannski smá skjálfti út af því. En svo fannst mér við róast, halda boltanum betur og í rauninni vera það liðið sem var nær því að skora.“

Eru meiðsli hennar alvarleg?

„Sjúkraþjálfarinn heldur að þetta sé í vöðvafestingunum, þannig að þetta er vonandi ekki brákað rifbein. Hún fékk högg á bringuna og er mjög aum, harkaði af sér út fyrri hálfleikinn og gat svo ekki haldið áfram.“

Cloé Lacasse, framherji ÍBV, hefur skorað 12 mörk í 14 leikjum í sumar en varnarleikur FH hélt henni alveg í skefjum í kvöld, var hún tekin sérstaklega fyrir?

„Við lögðum sérstaklega áherslu á að stoppa hana en ÍBV róterar mikið framherjum sínum, hún er út um allan völl. Aðalmálið er að stelpurnar voru meðvitaðar um að hún er hættulegur leikmaður og að þegar hún fékk boltann þá þurfti að koma hjálparvörn.“

FH liðinu gekk illa að skora í kvöld eins og oft áður í sumar, myndi liðið ekki oftar klára leiki sem þessa með framherja í þessum gæðaflokki í liðinu?

„Cloé er ein af þremur bestu leikmönnum deildarinnar og það segir sig sjálft að það gefur ÍBV mikið að hafa hana. Auðvitað myndi það hjálpa öllum liðum að hafa svona leikmann en ég er ánægður með mínar stelpur fram á við. Hún Alda, sem hefur lengst af í sumar verið á bekknum, er að fá sénsinn núna. Þetta er þriðji leikurinn hennar í byrjunarliðinu í sumar og hún hefur komið gríðarlega sterk inn, hjálpað okkur mikið,“ sagði Orri að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert