Samúel sló Íslandsmet Tryggva

Samúel Arnar Kjartansson í leikslok á Versalavelli í kvöld eftir …
Samúel Arnar Kjartansson í leikslok á Versalavelli í kvöld eftir að metið var fallið. Ljósmynd/Víðir Sigurðsson

Samúel Arnar Kjartansson, knattspyrnumaður úr Kópavogsliðinu Ými, setti í kvöld nýtt Íslandsmet í markaskorun í deildakeppni karla á Íslandi þegar lið hans sigraði Hrunamenn, 14:1, í riðlakeppni 4. deildar Íslandsmótsins á Versalavelli í Kópavogi.

Samúel skoraði átta mörk í leiknum og hefur nú skorað 44 mörk í 12 leikjum sem hann hefur spilað með Ými á þessu keppnistímabili. Hann getur bætt metið enn frekar en Ýmir hefur þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni um sæti í 3. deild og á einum leik enn ólokið í riðlakeppninni.

Metið féll strax á 4. mínútu leiksins í kvöld þegar Samúel gerði fyrsta mark Ýmis í leiknum úr vítaspyrnu. Hann var kominn með þrennu í hálfleik, þegar staðan var 5:0, og bætti við fimm mörkum í seinni hálfleik en þrjú þau síðustu skoraði hann á þremur mínútum undir lok leiksins.

Fyrra metið var orðið 33 ára gamalt en það átti Tryggvi Gunnarsson sem skoraði 36 mörk fyrir ÍR í 4. deild Íslandsmótsins (samsvarar 3. deild í dag) árið 1984 en Tryggvi lék sextán leiki. Hann spilaði eftir það með KA og Val og skoraði samtals 159 mörk, tæpan helming þeirra eða 77 í næstefstu deild og 8 í efstu deild.

Samúel er 29 ára gamall og hefur mestallan ferilinn leikið með Kópavogsliðunum HK og Ými en Ýmir er nokkurs konar B-lið HK og er nær eingöngu skipað fyrrverandi leikmönnum meistaraflokks HK eða leikmönnum sem hafa komið þar úr yngri flokkunum. Flestir þeirra sem skipa liðið í dag léku með HK í úrvalsdeild og 1. deild á árunum 2003 til 2011. Samúel lék með meistaraflokki HK 2009 til 2012 en hann varð á árum áður Íslandsmeistari með Kópavogsliðinu í 4. flokki árin 2001 og 2002.

Hann hefur nú skorað samtals 100 mörk í 106 leikjum í deildakeppni Íslandsmótsins og að auki 11 mörk í 13 leikjum í bikarkeppni KSÍ. Áttunda og síðasta markið í kvöld var mark númer 100 í röðinni.

Í síðustu viku skoraði Samúel 10 mörk í risasigri Ýmis á Kóngunum í 4. deildinni, 19:0, og varð þar þriðji leikmaðurinn í sögunni til að skora tug marka eða meira í leik á Íslandsmóti meistaraflokks karla. Þar jafnaði hann met Tryggva frá 1984.

Markametið í einum leik á Íslandsmóti karla á Hálfdán Gíslason sem skoraði 11 mörk fyrir Bolungarvík í sigurleik á HVÍ, 23:0, árið 1997. Fyrstur til að ná 10 mörkum var Garðar Jónsson sem skoraði tug marka í 19:0-sigri Sindra frá Hornafirði á Stjörnunni úr Berufirði árið 1990.

Þá skoraði Viktor Smári Segatta 10 mörk í leik með Haukum gegn Snæfelli í bikarkeppni KSÍ árið 2012 en Haukar unnu þann leik 31:0.

Samúel á enn nokkuð í land með að ná markahæsta leikmanni á einu tímabili ef talin eru saman Íslandsmót karla og kvenna. Olga Færseth skoraði 54 mörk fyrir Keflavík í næstefstu deild kvenna árið 1991 og er Samúel aðeins annar leikmaðurinn sem nær þeim áfanga að skora yfir fjörutíu mörk á einu tímabili á Íslandsmóti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert