Bara grátlegt

Tinna Bjarndís Bergþórsdóttir, fyrirliði Fylkis, í baráttuleik við Þór/KA fyrr …
Tinna Bjarndís Bergþórsdóttir, fyrirliði Fylkis, í baráttuleik við Þór/KA fyrr í sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég get bara sagt að þetta var grátlegt,“ sagði Tinna Bjarndís Bergþórsdóttir, fyrirliði Fylkis, eftir 3:2 tap fyrir Val að Hlíðarenda í kvöld þegar fór fram 14. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta, Pepsi-deildarinnar.  Orð að sönnu því jafntefli hefði í það minnsta verið sanngjarnt og nú bíður grimm botnbarátta Árbæinga, þegar fjórar umferðir eru eftir. 

„Mér fannst í stöðunni tvö-tvö meira eins og við vildum vinna en Valsliðið vildi frekar halda í jafntefli því það var þvílíkur kraftur í okkur þegar við skorum annað markið okkar.  Ég var því ekkert stressuð yfir að Valur skyldi skora í lokin en þetta var svona alveg týpískt.“

Fylkir gerði 3:3 jafntefli efsta lið deildarinnar, Þór/KA, í 12. umferð. „Eins og í leiknum við Þór/KA þá gefum við allt í leikinn en erum einhvern veginn eins og litla liðið sem fær ekki sigur og ekki stig en við gáfumst aldrei upp, þetta var allt öðruvísi en síðustu tveir leikir okkar og ég er ótrúlega stolt af liðinu,“ hélt fyrirliðinn áfram.

„Liðið er einhvern veginn að smella saman núna, allir að njóta sín og spila áhyggjulaust, ekkert stress eins og var svolítið í byrjun. Það er nóg sjálfstraust og liggur við að við séum betri á móti stærri liðunum, eins og leikmenn vilji sanna sig og það gefi auka orku. Við erum í ströggli á botninum og það eru fjórir leikir eftir en við horfum bara á einn leik í einu – verðum samt að fá þrjú stig í öllum leikjunum svo hver leikur er eins og bikarleikur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert