Harpa líklegast ekkert með í Króatíu

Harpa Þorsteinsdóttir leikur ekki með Stjörnunni í Króatíu.
Harpa Þorsteinsdóttir leikur ekki með Stjörnunni í Króatíu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Harpa Þorsteinsdóttir leikur líklegast ekkert með Stjörnunni í undankeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu, en riðill Stjörnunnar fer fram í Króatíu. Harpa á sex mánaða gamlan son sem hún hafði í huga á að færi með sér til Króatíu en að lokum gekk það ekki upp. 

„Við náðum ekki að púsla því saman að fara með Ými með. Það eru allir búnir með sumarfríið sitt og þetta er líka rosalega erfitt ferðalag,“ sagði Harpa við fotbolti.net í dag. 

Harpa gæti þó spilað lokaleikinn gegn Osijek frá Króatíu, en að hennar sögn verður það einungis ef einhver leikmaður Stjörnunnar meiðist. 

Á meðan Stjörnuliðið er í Króatíu, æfir Harpa með 1. deildarliði HK/Víkings sem Jóhannes Karl Sigursteinsson, eiginmaður hennar, þjálfar. 

Stjarnan vann færeysku meistarana í KÍ Klaks­vík, 9:0 í fyrsta leik sínum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert