Hvorki misst úr leik né fengið spjald í þrjú ár

Andri Rafn bregður fæti fyrir Elfar Árna.
Andri Rafn bregður fæti fyrir Elfar Árna. Thorir O. Tryggvason.,Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Andri Rafn Yeoman er sá leikmaður sem Morgunblaðið beinir sjónum að eftir 16. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Andri er aðeins 25 ára gamall en þegar orðinn langleikjahæsti leikmaður Breiðabliks í efstu deild frá upphafi.

Í 3:0-útisigri Blika gegn Víkingi Ólafsvík á sunnudag spilaði Andri sinn 167. leik í efstu deild, en alla hefur hann spilað með Breiðabliki. Hann missti síðast úr deildarleik í 15. umferð sumarið 2014, eða fyrir rúmum þremur árum.

„Þetta er orðinn ansi góður tími. Ef þú hefðir sagt einhverjum þjálfaranum mínum þetta þegar ég var að byrja, að ég yrði heill og myndi ekki missa af leik í nokkur ár, þá hugsa ég að menn hefðu ekki verið bjartsýnir á það,“ sagði Andri í samtali við Morgunblaðið.

Hann spilaði sjö síðustu leikina 2014, alla leikina síðustu tvö tímabil og hefur ekki misst úr leik í ár. Leikirnir eru því orðnir 67 í röð í deildinni og hefur Andri raunar aðeins misst af fimm deildarleikjum frá 2012.

Það vekur ekki síður athygli að hann hefur ekki fengið gult spjald í rúm þrjú ár, síðan síðan 18. maí 2014, sem er eiginlega ótrúlegt miðað við að spila á baráttusvæði sem djúpur miðjumaður.

„Ég er í einhverju góðu sambandi við dómarana greinilega. Ég skil ekki af hverju menn þurfa alltaf að vera að næla sér í þessi gulu spjöld, það er nú meira ruglið,“ sagði Andri og hló við. „Þetta snýst bara um að vera klókur og brjóta skynsamlega af sér þegar þess þarf.“

Viðtalið í heild sinni er í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag en þar er jafnframt að finna úrvalslið 16. umferðar, stöðuna í M-gjöfinni og eitt og annað um umferðina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert