Sárt tap gegn Finnum

Birkir Már Sævarsson í baráttu við Perparim Hetemaj í Tempere …
Birkir Már Sævarsson í baráttu við Perparim Hetemaj í Tempere í dag. AFP

Vonir Íslands um að komast beint í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu biðu talsverða hnekki í kvöld þegar Finnar sigruðu Íslendinga, 1:0, í sjöundu umferð riðlakeppninnar á Tampere Stadion í finnsku borginni Tampere.

Ísland lék síðasta stundarfjórðunginn einum færri eftir að Rúrik Gíslason fékk rautt spjald en honum var sýnt gula spjaldið í tvígang með tveggja mínútna millibili.

Ísland er áfram með 13 stig í öðru sæti en getur nú misst annaðhvort Úkraínu eða Tyrkland uppfyrir sig síðar í kvöld. Bæði eru með 11 stig og mætast. Króatía leikur við Kósóvó og getur náð þriggja stiga forystu. Finnar eru nú komnir með 4 stig en þetta er fyrsti sigur þeirra í keppninni og fyrsti sigur þeirra í mótsleik í tvö ár.

Alexander Ring fagnar með félögum sínum eftir að hafa skorað …
Alexander Ring fagnar með félögum sínum eftir að hafa skorað markið sem réð úrslitum. AFP

Glæsilegt mark strax á 8. mínútu

Finnar náðu forystunni strax á 8. mínútu. Þeir fengu aukaspyrnu um 25 metra frá marki Íslands eftir að Emil Hallfreðsson stöðvaði Përparim Hetemaj í hraðri sókn Finna. Alexander Ring tók spyrnuna og skoraði með stórglæsilegu skoti í þverslána og inn, 1:0. Hannes Þór Halldórsson átti líklega enga möguleika á að verja.

Aron Einar Gunnarsson átti ágæta skottilraun frá vítateig á 25. mínútu en Lukás Hrádecky markvörður varði. Í kjölfarið gaf Hrádecký Íslandi algjört dauðafæri þegar hann sendi boltann beint á Alfreð Finnbogason sem var skyndilega einn gegn markverðinum en missti boltann of langt frá sér og Hrádecký náði að loka á hann.

Gylfi Þór Sigurðsson sendir boltann fyrir inn á vítateig finnska …
Gylfi Þór Sigurðsson sendir boltann fyrir inn á vítateig finnska liðsins í leik liðanna í dag. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Átti Lod að fá rauða spjaldið?

Á 27. mínútu fékk Robin Lod gula spjaldið fyrir að brjóta gróflega á Alfreð. Miðað við myndir af atvikinu var finnski miðjumaðurinn stálheppinn að fá ekki beint rautt spjald, og Alfreð um leið heppinn að slasast ekki illa.

Harkan í leiknum fór vaxandi í kjölfarið og nokkur umdeild atvik áttu sér stað. Finnar voru m.a. stálheppnir að fá ekki á sig aukaspyrnu nánast á vítateigslínunni þar sem einn þeirra lagði hann fyrir sig með hendi en illa staðsettur tékkneskur dómari sá ekkert.

Íslenska liðið gerði oft harða hríð að finnska markinu eftir því sem leið á hálfleikinn en gekk illa að skapa opin færi gegn fjölmennum og þéttum varnarmúr heimamanna.

Finnar fengu aftur aukaspyrnu á góðum stað eftir skyndisókn, rúma 25 m frá marki, á 39. mínútu. Ring átti aðra góða skottilraun en aðeins neðar í þetta skipti og Hannes varði nokkuð örugglega.

Ragnar Sigurðsson og Aron Einar fengu báðir gula spjaldið fyrir brot seinni hluta fyrri hálfleiksins.

Oft þung pressa í seinni hálfleiknum

Ísland náði fljótlega upp talsverðri pressu í seinni hálfleik, eftir nokkuð frísklega byrjun Finna. Á 51. mínútu fékk Emil gott skotfæri á miðri vítateigslínu en skaut yfir markið. Rétt áður hafði hann fengið gula spjaldið fyrir að stöðva snögga sókn Finna á vallarhelmingi þeirra.

Alfreð Finnbogason komst í færi á 57. mínútu eftir laglegan snúning eftir sendingu Jóhanns Berg Guðmundssonar en varnarmaður náði að loka á skotið á síðustu stundu. Tveimur minútm síðar átti Aron Einar hörkuskot eftir þunga sókn en rétt yfir markið.

Heimir Hallgrímsson gerði tvöfalda breytingu á 59. mínútu þegar Rúrik Gíslason kom fyrir Birki Má Sævarsson sem hægri bakvörður og Björn Bergmann Sigurðarson kom fyrir Emil Hallfreðsson.

Björn fékk strax dauðafæri

Björn Bergmann komst í dauðafæri eftir þunga pressu á 61. mínútu en þrumuskot hans rétt við markteiginn fór í varnarmann og horn.

Engu munaði að Finnar kæmust í 2:0 á 64. mínútu þegar Tim Sparv átti góðan skalla eftir hornspyrnu en Rúrik Gíslason bjargaði á marklínu Íslands.

Hetemaj átti ágæta skottilraun að marki Íslands á 67. mínútu, rétt utan vítateigs, en beint á Hannes í markinu.

Aron Einar fékk gott skotfæri í miðjum vítateig Finna á 72. mínútu eftir aukaspyrnu Gylfa frá vinstri en skaut í jörðina og yfir markið.

Eero Markkanen komst í færi á markteig Íslands á 74. mínútu en varnarmaður komst fyrir hann og bjargaði í horn. Uppúr horninu átti Paulus Arajuuri skalla af stuttu færi en beint á Hannes.

Tvö gul spjöld og Rúrik rekinn af velli

Rúrik Gíslason braut tvisvar af sér með örstuttu millibili, á 74. og 76. mínútu, og var þar með rekinn af velli. Við það þyngdist að vonum róður íslenska liðsins sem var manni færra síðasta stundarfjórðunginn.

Finnar fengu dauðafæri eftir skyndisókn gegn fáliðaðri vörn Íslands á 80. mínútu en fyrst komst Kári Árnason fyrir skot frá Hetemaj og síðan skaut Ring framhjá markinu.

Eftir þunga sókn Íslands á 82. mínútu komst Gylfi í gott skotfæri á miðri vítateigslínu og boltinn straukst við stöngina hægra megin. Þar var upplagt færi til að jafna metin.

Finnar fengu algjört dauðafæri á 85. mínútu þegar Markkanen slapp aleinn innfyrir vörn Íslands en Hannes gerði frábærlega með að verja frá honum.

Ótrúlegt að Gylfi skyldi ekki jafna

Á 90. mínútu var með ólíkindum að Íslendingar myndu ekki jafna metin eftir darraðardans á markteignum. Hrádecký varði þá glæsilega frá Gylfa og tvö skot í viðbót fóru í finnsku varnarmennina við línuna.

Í uppbótartímanum fékk Ring gott skotfæri rétt utan vítateigs Íslands en skaut yfir markið. Örstuttu síðar flautaði tékkneski dómarinn til leiksloka og Finnar fögnuðu gríðarlega sínu fyrsta sigri í keppninni.

Íslenska liðið heldur heimleiðis á morgun og mætir Úkraínu á Laugardalsvellinum á þriðjudagskvöldið þegar áttunda umferðin verður leikinn. Tvær síðustu umferðirnar fara síðan fram 6. og 9. október þegar Ísland leikur við Tyrkland á útivelli og Kósóvó á heimavelli. Sigurlið riðilsins kemst beint á HM 2018 í Rússlandi en liðið í öðru sæti fer að öllum líkindum í umspil.

Gylfi Þór Sigurðsson í upphitun fyrir leikinn í Tampere í …
Gylfi Þór Sigurðsson í upphitun fyrir leikinn í Tampere í dag. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson
Kári Árnason í upphitun fyrir leikinn í Tampere í dag.
Kári Árnason í upphitun fyrir leikinn í Tampere í dag. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson
Finnland 1:0 Ísland opna loka
90. mín. Gylfi Þór Sigurðsson (Ísland) á skot sem er varið Dauðafæri!! Gylfi nær góðu skoti sem er varið, frákastið hrökk út í teiginn á Björn Bergmann sem er að lokum dæmdur rangstæður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert