Fyrst og fremst svekktir

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Eggert

„Við vorum bara slakir,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, eftir 3:0-tapið gegn ÍBV í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag, sem minnkaði vonir KR-inga talsvert um að ná Evrópusæti.

„Við áttum alveg möguleika hérna framan af leik. Við vissum sem var að þeir myndu liggja til baka og beita skyndisóknum. Það er erfitt að ná ekki frumkvæðinu gegn ÍBV. Við vissum að það yrði mikilvægast, en það tókst ekki og við vorum 1:0 undir í hálfleik. Við vorum staðráðnir í að breyta þessu í seinni hálfleik en náðum okkur einhvern veginn aldrei í gang. Það vantaði hraða í spilið, að klára sóknirnar, og þau færi sem við fengum nýttum við ekki,“ sagði Willum.

Stuðningsmenn KR voru margir hverjir farnir heim til sín áður en flautað var af, og leikmenn KR strunsuðu af velli eftir leik:

„Menn eru fyrst og fremst svekktir,“ sagði Willum. „Það ætluðu allir að leggja sig fram og það vantaði ekkert upp á það. Leikurinn þróaðist frá okkur og við náðum okkur aldrei í gang. Þess vegna eru menn svekktir en ég get ekki sakað einn eða neinn um að leggja sig ekki fram og við vorum inni í þessu lungann af leiknum,“ sagði Willum.

Bretarnir hafa gjörbreytt ÍBV

ÍBV vann báða leiki sína gegn KR í sumar en er það eitthvað sérstakt við Eyjaliðið sem hentar KR-ingum illa?

„Þeir fengu tvo Breta hérna síðsumars sem hafa gjörbreytt liðinu, og eru bara mjög þéttir. Það er erfitt að brjóta þá á bak aftur. Svo hafa þeir gæði inni í liðinu, og þegar lið liggur svona til baka þá er lausnin auðvitað að ná frumkvæðinu. Um leið og þeir ná frumkvæðinu þá fer maður kannski að opna sig enn meira og þá refsa þeir, eins og þeir gerðu býsna vel í dag,“ sagði Willum.

Eftir góðan sigur á FH fyrir landsleikjahléið er KR í 3. sæti deildarinnar, en á nú á hættu að missa fleiri en eitt og fleiri en tvö lið upp fyrir sig áður en 18. umferðinni lýkur:

„Þetta er ekki búið fyrr en flautað er af. Við verðum bara að einblína á næsta leik og svara fyrir þennan leik þar. Við vorum slakir núna og menn verða þá bara að svara því í næsta leik,“ sagði Willum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert