ÍBV skellti KR og kom sér úr fallsæti

Eyjamenn komu sér upp úr fallsæti, alla vega tímabundið, með frábærum 3:0-sigri á KR í fyrsta leik 18. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Frostaskjóli í dag.

Eftir sigurinn er ÍBV með 19 stig líkt og Fjölnir og Víkingur Ólafsvík, í sætum 9-11. Víkingar eru með lélegustu markatöluna og því komnir í fallsæti. Víkingur og Fjölnir mætast hins vegar nú kl. 16.30 í Ólafsvík og jafntefli eða sigur Fjölnis þar myndi senda ÍBV aftur í fallsæti.

KR er með 26 stig í 3. sæti en horfði á eftir afar mikilvægum stigum í baráttunni um Evrópusæti. FH er með 25 stig og á nú tvo leiki til góða á KR, og Grindavík er einnig með 25 stig og á einn leik til góða. Svo eru Breiðablik og KA með 24 stig hvort, og eiga leik til góða.

Eyjamenn eru vel að sigrinum í dag komnir. KR gekk illa að byggja upp spil og skapa sér færi, en Eyjamenn voru beinskeyttari og og Gunnar Heiðar Þorvaldsson kom þeim yfir um miðjan fyrri hálfleik eftir sendingu frá Shabab Zhaedi. Gunnar Heiðar hafði skömmu áður komist í annað gott færi en nýtti það seinna af miklu öryggi. Tobias Thomsen átti bestu tilraun KR í fyrri hálfleiknum en klippti boltann rétt yfir hægri markvinkilinn, skömmu áður en flautað var til leikhlés.

Íraninn Zhaedi var sprækur í framlínu ÍBV og átti skalla í þverslá snemma í seinni hálfleik. Hafsteinn Briem kom gestunum svo í 2:0 af miklu harðfylgi eftir langt innkast Jónasar Næs. KR-ingar gerðu breytingar á sínu liði og freistuðu þess að auka sóknarþungann, en það skilaði sér ekki og að lokum kom þriðja mark ÍBV, þegar Sindri Snær Magnússon skallaði í stöng og inn eftir fyrirgjöf Jónasar.

KR 0:3 ÍBV opna loka
90. mín. Það eru bara eftir þrjár mínútur af uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert