Það er ekkert stress í okkur

Eyjamenn fagna einu þriggja marka sinna gegn KR í dag.
Eyjamenn fagna einu þriggja marka sinna gegn KR í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var frábær leikur hjá öllu liðinu. Við vörðumst sem heild og þegar við sóttum vorum við alltaf hættulegir,“ sagði Hafsteinn Briem, miðvörður ÍBV, eftir 3:0-sigur liðsins á KR í Vesturbænum í dag, í 18. umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu.

„Ég held að við getum verið hrikalega stoltir af þessari frammistöðu. Það eru ekki margir sem koma hingað í Frostaskjólið og bæði halda markinu hreinu og skora þrjú mörk,“ sagði Hafsteinn.

„Við vorum búnir að greina þá vel fyrir leikinn. Þeir fengu kannski eitt færi, Óskar, en svo voru þetta bara langir boltar,“ sagði Hafsteinn, en reyndar skapaðist líka smáhætta þegar markvörðurinn Derby Carrillo ákvað að leika sér aðeins að eldinum gegn framherjum KR:

„Já, það er ekkert nýtt. Hann þarf líka að passa sig stundum,“ sagði Hafsteinn léttur í bragði.

ÍBV komst með sigrinum úr fallsæti, að minnsta kosti í bili, og staða liðsins er mun betri eftir þessi dýrmætu þrjú stig. Hafsteinn tekur undir að spilamennska bikarmeistaranna hafi einfaldlega verið með ágætum síðustu vikur.

„Þó að við höfum ekki verið að safna mörgum stigum þá hafa leikirnir verið, frá því að við mættum Stjörnunni í bikarnum, að minnsta kosti 50:50 leikir, fyrir utan Valsleikinn þar sem við vorum bara kaffærðir. Það er ekkert stress í okkur. Við vitum að staðan er erfið en höfum fulla trú á þessu eins og við sýndum í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert