Vantaði gæði við að reka smiðshöggið

Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks.
Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við misstum einbeitinguna í eitt augnablik og það voru einstaklingsmistök sem urðu okkur að falli. Það voru leikmenn sem unnu ekki vinnuna sína nógu vel og við fengum á okkur mark sem réði úrslitum. Við vorum öflugir í fyrri hálfleik, en eins og áður náum við ekki að nýta færin sem við sköpum,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, eftir 1:0-tap liðsins gegn Val í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. 

„Það eru mikil gæði í þessu Valsliði og þeir nýta það pláss og þær stöður sem þeir skapa. Við þurfum að læra af liði eins og Val í því að nýta okkur það þegar við erum sterkari aðilinn í leikjum. Við þurfum aðeins meiri neista, trú og gæði þegar við komumst í færin. Ég er sáttur við margt í þessum leik, en á hinn bóginn ósáttur við að ná ekki að grípa tækifærið að blanda okkur í baráttuna um sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð,“ sagði Milos hundfúll.

„Við þurfum líka að gæta okkur á því að sogast ekki í fallbaráttu. Það gæti verið að lið þurfi 26 stig til þess að sleppa við fall og við þurfum því að fara að hala inn stigum í næstu leikjum. Næsta verkefni er KR í Kópavoginum og við þurfum að grafa vonbrigðin með að tapa þessum leik og fara að undirbúa okkur fyrir þann leik strax á morgun,“ sagði Milos um framhaldið hjá Breiðabliki.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert