Komum í þetta með blóð á tönnunum

Hallbera Guðný Gísladóttir (til vinstri) á æfingu í dag.
Hallbera Guðný Gísladóttir (til vinstri) á æfingu í dag. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Landsliðskonan Hallbera Guðný Gísladóttir spjallaði við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í dag. Fram undan er fyrsti leikur í undankeppni HM í knattspyrnu sem fram fer í Frakklandi. Ísland fær heimsókn frá Færeyjum á mánudaginn kemur. 

„Ég veit að þær eru að koma nýjar inn í þetta og hafa verið að vinna þá leiki sem þær hafa verið að spila, en á móti lakari þjóðum. Það er ekki auðvelt að spila við Eyjabúa og ég býst við að þetta verði hörkuleikur og að þær mæti grimmar til leiks.“

„Við eigum að setja þá kröfu á okkur að vinna þennan leik. Það er ekki leyndarmál að við erum með sterkara lið. Við erum með leikmenn sem spila með góðum liðum í Evrópu og við erum með rútíneraðra lið.“

Hallbera segir liðið staðráðið í að gera betur eftir vonbrigðin á EM í sumar. 

„Það er alltaf gaman að hitta landsliðið. Það er spennulosun að koma til baka og geta gleymt síðasta verkefni og einbeita sér að nýrri keppni og setja okkur ný markmið. Við komum í þetta með blóð á tönnunum og við viljum gera betur.“

Markmiðið er að fara í umspilið

„Ég tel að við getum sett okkur það markmið að fara í umspilið, við eigum góðan séns á því og það hefur gengið vel hjá okkur að fara í umspil til þessa og það væri gaman.“

Hallbera leikur með Djurgården í Svíþjóð og er hún ánægð með sína eigin frammistöðu og frammistöðu liðsins að undanförnu. 

„Það hefur gengið mjög vel, við erum ósigraðar eftir hléið og við erum á fínum stað í töflunni miðað við væntingar, mér líður vel persónulega og ég hef verið að spila vel.“

Anna Rakel Pétursdóttir er nýliði í landsliðinu, en hún spilar sem vinstri bakvörður, líkt og Hallbera. Hún segir samkeppnina í liðinu ekki öðruvísi með innkomu Önnu. 

„Það er ekki mín tilfinning. Ég hef aldrei litið á það þannig að ég eigi þessa stöðu í vinstri bakverði. Ég er ekki örugg með að spila, sama hversu illa eða vel ég spila. Það er flott að fá nýjan leikmann inn og það er frábært að svona ungir leikmenn séu að banka á dyrnar,“ sagði Hallbera Guðný að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert