Þetta var erfiður tími eftir EM

Sara Björk æfir í dag.
Sara Björk æfir í dag. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Þetta er bara önnur æfingin og ég hef aldrei spilað við Færeyjar áður og ég held engin af okkur hafi gert það. Við vitum voðalega lítið um Færeyjar, þær eru hins vegar í undankeppninni og við þurfum að klára þetta verkefni," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir er mbl.is spjallaði við hana á æfingu landsliðsins í knattspyrnu í dag. Framundan er leikur við Færeyjar í undankeppni HM. 

„Á pappírnum eigum við að vera með betra lið en við verðum að sýna það og vinna fyrir okkur úrslitum."

Sara viðurkennir að það hafi verið erfitt að jafna sig eftir EM í Hollandi, sem voru mikil vonbrigði. 

„Maður hefur náð að hrista þetta aðeins af sér, þetta var erfiður tími eftir EM. Nú erum við komin af stað og það er þannig í fótbolta að næsta verkefni tekur við, næsta mót og næsti leikur. Maður þarf að setja annað til hliðar og halda áfram."

Íslenska liðið hefur aldrei komist á HM aftur og segir Sara það vera draum allra í liðinu. 

„Það er draumur okkar allra að komast inn á fyrsta HM. Við erum búnar að fara á þrjú EM og okkur langar líka að fara á HM."

Sara spilar með Wolfsburg í Þýskalandi og er liðið eitt það besta í Evrópu. Tímabilið þar í landi hefur farið vel af stað og er markmiðið sett á að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. 

„Við erum búnar að spila tvo leiki og vinna þá báða með markatöluna 10:0. Það er góð byrjun en þetta er bara nýbyrjað. Klúbburinn er með stór markmið með Meistaradeildina og við viljum komast lengra en í átta liða úrslitin eins og í fyrra þar sem við lentum á móti Lyon. Núna eigum við Atlético Madrid í október, við ætlum okkur að komast áfram þar. Markmiðið er að fara í úrslitaleikinn," sagði Sara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert